fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Pælingar 24

And Landspabbi, of Course...

Stóri Pabbi: Strákinn minn vantar einhverja góða vinnu. Datt í hug að hann væri efnilegur dómari.

M Ráðherra: Í handbolta?

Stóri Pabbi: Já, alveg örugglega, en það er ekki nógu vel borgað. Datt í hug héraðsdómari. Þú getur reddað því.

M Ráðherra: Já, ég get það - en er hann hæfur?

Stóri Pabbi: Hæfur! Hvaða máli skiptir það. Hann er strákurinn minn.

M Ráðherra: Æi, þú veist, fjölmiðlar og almenningur munu væla yfir þessu.

Stóri Pabbi: Iss, skiptir engu máli. Það stendur stutt yfir. Þjóðin er með gullfiskaminni og það er okkar hagur. Þess vegna erum við aldrei reknir og þess vegna þurfum við aldrei að segja af okkur. Hugsaðu þér hvað þetta er þægilegt.

M Ráðherra: En þarf ég ekki að útskýra ráðninguna eða réttlæta? Mæta í einhver ömurleg viðtöl? Það er svo leiðinlegt.

Stóri Pabbi: Nei, nei, sendu bara frá þér eitthvað bull á blaði, neitaðu viðtölum og sendu síðan einhvern ungan kjána úr flokknum í viðtölin – það er til nóg af þeim. Og þeir gera hvað sem er fyrir okkur til þess að geta verið eins og við þegar fram líða stundir. Þú slakar bara á – lætur aðra um skítverkin – það er að vera pólitíkus.

M Ráðherra: Þetta hljómar vel.

Stóri Pabbi: Þetta hljómar ekki bara vel – þetta er málið. Ef við lærum inná veikleika þjóðarinnar þá getum við mergsogið hana, platað hana endalaust upp úr skónum og komið öllum þeim sem við viljum á spenann - og haft það síðan fjandi gott eftir að við drögum okkur í hlé.

M Ráðherra: Heyrðu, ég græja soninn í starfið. Takk fyrir þetta, svona eiga menn að vera. Ég held að ég hafi aldrei lært eins mikið á eins stuttum tíma. Þú ert sko góður pabbi!

Stóri Pabbi: Ég er Landspabbi. Ég ræð ennþá.

Víkurfréttir, 17. janúar 2008

3 ummæli:

Hjalti sagði...

Nýverið spjallaði ég við vin minn sem er fastakúnni á BSH. Hann sagðist hafa orðið alveg stúmm þegar hann hitti SMS í fyrsta sinn (held það hafi verið á tónó). Umræddur maður var kunnugur SMS úr Pælingadálki VF, en reiknaði með því að þarna færi öskrandi síkópatti í rifnum gallabuxum, netabol og snjáðum leðurjakka. Hann trúði varla sínum eigin augum þegar hann sá hið þjónustulundaða og velrakaða ljúfmenni.

Hjalti sagði...

Annars lítur út fyrir að Hallgrímur Helgason hafi fengið lánaða hugmynd hjá þér, Svanur:

http://www.visir.is/article/20080216/SKODANIR04/102160154

Nafnlaus sagði...

Ég gæti vel trúað því að Hallgrímur væri dyggur lesandi pistla minna :)

Já, fólk á bókasafninu hefur stundum átt erfitt með að tengja saman mig og þessa pistla. Það er gaman að því. Kveðja frá þjónustulundaða og velrakaða ljúfmenninu