laugardagur, 23. febrúar 2008

Þú biður fallega


Þú biður fallega. Og manst alltaf eftir deginum. Það kann ég vel að meta. Ekkert hálfkák, ekki verið að fara undan í flæmingi, ekki farið í kringum hlutina. Dagurinn líka fallegur. Snjórinn svo hvítur að það er ekkert hvítara til hér á jörðu. Gnauð vindsins er svo til þess fallið að styrkja innviði sálarinnar og veitir nú ekki af. Puttarnir kaldir, nefið rautt og skórnir farnir að leka. Verð að skipta um sokka um leið og ég kem heim. Ætli ég fari ekki í gráu sportsokkana. Er ekki í skapi til að fara í svarta eða hvíta sokka í dag. Ekki í dag. Og þú biður fallega. Svo segi ég alltaf já. Finnst miklu skemmtilegra að segja já heldur en nei. Miklu skemmtilegra að gefa en þiggja en vil auðvitað líka þiggja, bara ekki eins oft og ég gef. Og þetta er fallegur dagur. Enginn er að rífast. Enginn er reiður. Enginn að skammast í öðrum. Enginn er að ráðskast með annað fólk. Margir að hlusta á góða tónlist og bera rakakrem á hendur sínar. Taka úr uppþvottavélinni en nenna ekki að setja í þvottavélina. Horfa síðan út um stóra gluggann í stofunni og velta því fyrir sér hvernig landslagið er alltaf breytast. Hvernig það sé eiginlega hægt og hverjum hafi dottið í hug að láta það gerast. Góð hugmynd, og vel framkvæmd. Þú biður fallega og þetta er góður dagur.

2 ummæli:

Hjalti sagði...

Sælla er að gefa en þiggja...á kjaftinn.

Nafnlaus sagði...

Helvíti vont að fá á kjaftinn.

Kv, Svanur