miðvikudagur, 30. janúar 2008

Minningar & músík V


Laugardaginn 22. desember, 2007 - Menningarblað/Lesbók Mbl.

Poppklassík: Eftir Svan Má Snorrason sms@utopia.is


Tvö andlit Tusk


Plata Fleetwood Mac, Rumours, kom út árið 1977 og er ein söluhæsta plata allra tíma; hefur selst í meira en 30 milljónum eintaka. Fjórar smáskífur af plötunni komust inn á topp 10 í Bandaríkjunum og óhætt er að segja að eftir útkomu plötunnar hafi Fleetwood Mac orðið ein vinsælasta hljómsveit heims.

Eins og gjarnan er eftir slíkar plötur vilja útgefendur og aðdáendur fá meira af því sama. En raunin varð önnur hjá Fleetwood Mac og átti gítarleikarinn og laga- og textahöfundurinn Lindsey Buckingham mestan þátt í því að næsta plata sem leit dagsins ljós, Tusk, var á ákveðinn hátt gjörólík Rumours. Auk Buckingham skipuðu hljómsveitina á þessum tíma bassaleikarinn John McVie, trommarinn Mick Fleetwood, lagasmiðurinn, hljómborðsleikarinn og söngkonan Christine McVie, og söngkonan og lagasmiðurinn Stevie Nicks.
Í maí 1978 fór Buckingham til fundar við Mick Fleetwood. Þess ber að geta að meðlimir Fleetwood Mac á þessum tíma voru sólgnir í áfengi og eiturlyf og almennt partýstand. Þrátt fyrir neysluna var Buckingham með áætlun; hann ætlaði að taka upp öll lögin sem hann átti á lager á eigin spýtur og kynna þau svo fyrir hljómsveitinni. Mick Fleetwood samþykkti það en hefur látið hafa þetta eftir sér: „Ég hélt að Lindsey væri orðin geggjaður, en við þurftum á hans sýn að halda, til að komast úr sporunum, svo ég sagði honum að kýla á þetta.“
Lindsey Buckingham sat ekki við orðin tóm, hann tók þegar til við að skapa nokkrar villtar og tilraunakenndar prufuupptökur (með hjálp nokkurra villtra og tilraunakenndra efna) í stúdíóinu sem hann var með heima hjá sér, og reyndar út um allt húsið. Meðal annars söng hann liggjandi á baðherbergisgólfinu og notaði pakka undan þerripappír fyrir trommur.
Hljómsveitin kom svo saman í Los Angeles Village Records ekki löngu síðar til þess að eyða næstu 13 mánuðum í það sem varð að lokum tvöfalda albúmið Tusk – kom út 19. október 1979.

Platan var óheyrilega dýr í framleiðslu, dýrasta plata sögunnar fram að þessu, og voru forráðamenn plötuútgáfunnar stressaðir yfir útkomunni. Þeir urðu enda foxillir þegar þeir heyrðu lokaútgáfuna því hér var ekki um að ræða framhald af Rumours. En þeir gátu ekkert tjónkað við meðlimi Fleetwood Mac, sem höfðu sitt fram, enda í afar sterkri stöðu eftir alla söluna á Rumours.
Tusk seldist lítið í samanburði við Rumours, eða í um fjórum milljónum eintaka, en skilaði þó framleiðslufénu til baka og gott betur, sem og þremur lögum á topp 20 – þeirra þekktust eru titillag plötunnar og Sara.
„Á þessum tíma héldu margir að við værum búin að tapa okkur,“ sagði Mick Fleetwood löngu eftir útgáfu Tusk. „En ég held að þessi plata hafi bjargað hljómsveitinni. Þetta sýndi okkur hvað við værum fær um að gera. Þetta er klikkuð plata en ég verð að segja að hún gæti verið sú besta sem við höfum sent frá okkur.“
Lög Lindsey Buckingham á Tusk eru gjörólík þeim lögum sem söngkonur og lagasmiðir hljómsveitarinnar, Christine McVie og Stevie Nicks, höfðu fram að færa. Lög hans á Tusk eru reyndar gríðarlega ólík þeim lögum sem flestir tengja við Fleetwood Mac þegar á heildarferil hljómsveitarinnar er litið.
Tvískipt tónlistin á Tusk er nú meginpartur af aðdráttarfli verksins og því vel við hæfi að það hafi verið tvöfalt. Lindsey Buckingham hljómar eins og hann standi á bjargbrún í ofsaveðri; á barmi taugaáfalls, og taugaáfall fékk hann stuttu eftir útkomu Tusk.
Þegar öllu er á botninn hvolft er eins og þetta sé sólóplata hjá Lindsey Buckingham sem er trufluð af og til af öðrum hljómsveitarmeðlimum; Það er eins og Stevie Nicks og Christine McVie séu með lögum sínum stöðugt að leggja kaldan þvottapoka á heitt enni Buckingham.

Til marks um hversu stór þáttur Buckingham var þá er á plötuumslaginu, og sjálfum plötunum, að finna þakkarskeyti frá hljómsveitinni til hans: „Special thanks from the band to Lindsey Buckingham.“ Ekki á hverjum degi sem slíkt er gert og segir þetta meira en mörg orð um hversu meðvitaðir aðrir meðlimir hljómsveitarinnar voru um að gerð þessarar plötu, og Lindsey þáttur Buckingham, væri skref í rétta átt – skref framávið.
Tusk er mjög merkileg plata því það gerist ekki á hverjum degi að svo vinsæl hljómsveit taki slíka áhættu eins og raunin var með Tusk. Útkoman er skemmtileg blanda af því besta sem einkennir feril Fleetwood Mac; frábærar melódíur í skotheldum flutningi, og svo þrælgóð, villt og tilraunakennd lög Buckingham í sérkennilegum en vel heppnuðum útsetningum.
Rumours er ein besta poppplata allra tíma. Ekki veikan blett á henni að finna og nánast öll lögin skotheldir smellir sem límast á heilann og eru enn í dag í mikilli spilun. En Tusk er höfuðsmíð Fleetwood Mac.
Þakkir til Lindsey.

föstudagur, 25. janúar 2008

Cowgirl In The Sand


Ætli Neil hafi komið til Íslands og samið þessa snilld. Cowgirl. Cowgirl In The Black Sand ef Clint Eastwood hefði leikstýrt. En vá, hvað þetta lag er gott. Dylan, Bowie og Young saman, annaðhvort án eiturlyfja eða á algjöru trippi, þvílík músík sem þar myndi samin verða. Svona eins og Miles Davis og Jaco Pastorius hefðu grúppað sig saman, edrú (ólíklegt), eða á alvöru kókaín-trippi, og látið Wayne Shorter um upptökur. Tréhestar. Engin táfýla þar.

miðvikudagur, 23. janúar 2008

Fréttaauki - Fréttir - Séð & heyrt


Íslendingar unnu Ungverja í kvöld. Heath Ledger lést í gær. Stebbi fr. er búinn að blogga um báða atburði eins og ég. Eða þannig. Fleetwood Mac er yndislega góð hljómsveit (þá meina ég með Lindsey Buckingham innanborðs). Hjalti og Linda eru efnilegir þýðendur. Á mánudaginn byrja ég að vinna á Séð & heyrt. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 20,1% frá áramótum og ekki er langt síðan það voru áramót. Kristín Jóna og Halla leggja stund á almenna bókmenntafræði og nota ég nú loksins tækifæri til að lýsa ánægju minni með að það skuli þær gera. Harpa Rut er nýbyrjuð að vinna við skjöl. Ég hef undanfarið hlustað óhóflega mikið á lögin Cristobal með Devendra Banhart og Bram Stoker með Soma. Einnig hef ég að undanförnu sett óvenju oft í þvottavélina og uppþvottavélina. Aui ætlar að klára bómenntafræðina í vor og er loksins orðinn reglulegur lesandi bloggsins míns. Hann er að lesa þetta (eða mun gera það og hlusta um leið á Klaus Nomi). Ásdís Erla er kominn í smá frí frá vinnunni og á hún það skilið. Ég ætla ekki að fá mér hund og köttur drauma minna virðist ekki geta hætt að skíta í sandkassann á lóðinni. Nágrannarnir eru ekki ánægðir með það en hafa hingað til ekki kvartað yfir fisknum í minni íbúð sem syndir fram og til baka í fiskabúrinu (miðað við stærð hans er þetta nú ekki svo slæmt) og bíður eftir því að einhver gefi honum eitthvað annað en niðurskorinn litaðan pappír að éta. Hann þarf að bíða ansi lengi. Róbert er bróðir Aua og hann gaf mér meðmæli og ég er þakklátur honum fyrir það. Þykir mjög vænt um Róbert (og auðvitað marga aðra sem vita það alveg og ég þarf ekkert að telja það fólk hér upp þótt ég segi þetta um Róbert núna). Síðasta lagið á plötu The Eagles, Hotel California, heitir The Last Resort, og er alveg frábært. Líka lagið Mr. Bojangles með Bob Dylan. Góða nótt, kæru vinir.

FIKT


þriðjudagur, 22. janúar 2008

Tíðinda að vænta

Nánar verður frá því sagt í næsta fréttatíma.

mánudagur, 21. janúar 2008

Bítlarnir & Blyton


Ímyndunarafl og bækur tengjast sterkum böndum. Og það er meginmunurinn á bókum og kvikmyndum.

Bækur krefjast fullrar einbeitningar en gefa oft mikið af sér.
Kvikmyndir eru af öðrum toga – geta vissulega gefið af sér og krefjast stundum einbeitningar en þú þarft sjaldan að nota ímyndunaraflið; kvikmyndatökuvélin sér fyrir því.


Bækur og svefn


Í æsku, þegar búið var að göslast í gegnum skóladaginn, var bókasafn skólans heimsótt. Í mínu tilviki voru bækurnar um bræðurna hugumprúðu, Frank og Jóa, afar vinsælar og bækur eftir Enid Blyton. Einnig spennusagnahöfundurinn Desmond Bagley en af þeim íslensku var Einar Már Guðmundsson vinsæll enda var hann svo fyndinn. Svo fékk annað að fljóta með.

Þegar heim var komið var heimalærdómurinn ekki efstur á lista heldur bækurnar frá bókasafninu. Og síðan sökkti maður sér ofan í ímyndaðan heim, fullmótaðan á fáeinum andartökum. Á þessum árum hlustaði ég mikið á fyrstu plötur bítlanna (fannst þær sem út komu eftir 1966 vera of skrýtnar eða þungar, en það hefur breyst) og því er það svo þegar minnst er á Enid Blyton fara bítlalög að hljóma í kollinum á mér! Skrýtið en skemmtilegt.
Ob-la-di, Ob-la-da!

Svo geta bækur - og þá sérstaklega námsbækur! - verið hið besta svefnlyf. Auðvelt að sofna út frá þeim en kannski ekki beint æskilegt. Hins vegar er það því miður svo, að mínu mati, að fáar skemmtilegar námsbækur hafa verið samdar og ég ekki man glöggt eftir neinni sem mér fannst beinlínis skemmtileg. En ég lifi í voninni og er ekki einn um það.

Það er ekkert líf í bókum!

Og síðan verður það að viðurkennast að það er ekkert líf í bókum. Innbundnar blaðsíður sem búið er að fylla af orðum safna bara ryki séu þær ekki lesnar. Ef bækur eru ekki lesnar er ævintýraheimurinn í þeim innilokaður. Það er einungis líf í þeim bókum sem lesnar eru. Og þess vegna eru bókasöfn svona mikilvæg því fæstir hafa pláss fyrir mikinn fjölda af bókum inni í híbýlum sínum og svo er alveg hryllilega leiðinlegt að þrífa og þrifnaður og bækur fylgjast að – annars verður maður étinn af maurum sem nenna ekki lengur að éta eða lesa bækurnar þínar og vilja prófa eitthvað nýtt. Það verður einhver að geyma allar þessar bækur sem gefnar eru út og verja okkur um leið fyrir innrás mauranna.

Svo sá ég lífstílsstílsþátt í sjónvarpinu þar sem bækur voru notaðar sem skraut, uppstillingar á hillum þar sem uppröðun þeirra, lögun og litur skiptu máli; ekki innihaldið. Fannst þetta sorglegt. Ég er kannski svona gamaldags en mér finnst bækur ekki vera skraut og sorgleg örlög þeirra bóka sem í þessu lenda. Örlögin þau eru til marks um hvernig yfirborðs- og sýndarmennskan getur líka náð til sjálfra bókanna. Blessuð sé minning þeirra.

Um öryggisbúnað og lestur!

Las skemmtilega dagbókargrein eftir Þráinn Bertelsson í Fréttablaðinu, 6. janúar síðastliðinn. Þar var að finna þessa bráðsmellnu klausu um bækur & líf:

“Síðan tóku við hinar hefðbundnu sprengingar á Landakotstúni. Nú eru öll börn með öryggisgleraugu og næsta ár verða allir skyldaðir til að vera með stál- eða asbesthanska líka til að sprengja ekki af sér fingur eða brenna sig.
Þrátt fyrir allan þennan öryggisbúnað varð samt smáslys á heimilinu. Litla Sól rak nefnilega horn á bókarspjaldi upp í augað á pabba sínum þegar hann ætlaði að fara að lesa fyrir hana. Þetta leit ekki vel út í fyrstu, en fór samt betur en á horfðist ef svo má að orði komast – og sýnir vitanlega að bækur eru ekki síður hættulegar en sprengiefni og sennilega væri skynsamlegt að allir notuðu öryggisgleraugu við lestur.”

Allt getur gerst við lestur bóka. En að lokum: Bækur munu halda áfram að koma út svo lengi sem mannfólkið tórir því það eru órjúfanleg tengsl þarna á milli; bækur veita okkur andlega næringu og kærkomna hvíld frá amstri hversdagsleikans – hraða hans og áreiti. Við þörfnumst þess öll.

Svanur Már Snorrason

Greinin birtist í: Bókasafnið. 31. árgangur. Maí 2007.

föstudagur, 18. janúar 2008

Tengingin 2


Í annað sinn á þessari heimasíðu er boðið uppá dagskrárliðinn Tengingin. Síðast var Hjalti hlutskarpastur. En nú er spurt um tenginguna á milli enska rithöfundarins Aldous Huxley og strætóleiðarinnar Grandi Vogar 2. Hver er hún? Og verðlaunin að þessu sinni eru ekki af verri endanum: Kippa af Pilsner Urquell í gleri (fáist hann á annað borð í gleri eða yfirhöfuð - ef ekki þá bara önnur tegund). Gangi ykkur vel.

miðvikudagur, 16. janúar 2008

Á Sunnuvegi 8


Þarna heldur Nanna á mér, Gísli Jens við hliðina og við hliðina á honum er Jón Özur. Líklega er myndin tekin um jólin 1972.

þriðjudagur, 15. janúar 2008

Pælingar 22


Með bólur í bekkjarpartý

Fór í bekkjarpartý um daginn. Góð hugmynd að hitta gömlu skólasystkinin úr Víðistaðaskóla í heimahúsi áður en haldið var á hið hefðbundna “reunion” með öllum úr hinum bekkjunum.

Skemmtilegt, en hugmyndin að bekkjarpartýinu þó best; þarna hittist fólk sem var árum saman í bekk og margir hverjir hafa lítið sem ekkert hist í áranna rás. Rifjaðir voru upp gamlir og góðir tímar, og svo voru auðvitað allir (í leyni) að skoða hvernig árin hefðu nú farið með gömlu bekkjarsystkinin, og sjálfan sig í samanburði. Gaman að því.

En ekki gaman að einu sem gerðist fyrir mig í vikunni fyrir partýið. Ég fékk bólur á nýjan leik. Já, ég var sá sem fékk að vera holdgervingur unglingsáranna – 36 ára gamall. Tvær stórar og ógeðslegar bólur létu á sér kræla – önnur á enninu vinstra megin en hin, einnig vinstra megin, rétt ofan við efri vörina. Þetta voru kýli og ég hugsaði um að láta ekki sjá mig enda viðkvæmur fyrir svona hlutum – algjör kelling.

En sama dag og partýið var hóf ég sjálfspyntingar með það að markmiði að kreista allt sem hægt var að kreista úr ófögnuðinum. Fékk lánaðan beittan augnbrúnaplokkara hjá konu minni; vætti hann í spritti og stakk svo á með tilheyrandi sársauka (og talsverðri andlegri skömm). Mikið vall út. Þetta leit betur út en þó ekki vel.

Því var gripið til þess ráðs að nota snyrtivörur og aftur lét andlega skömmin á sér kræla. Konan setti meik á bólusmettið og þetta leit betur út. Músík og mjöður juku svo á tiltrú þess að ætlunarverkið hefði tekist og ég gæti sýnt á mér fésið án þess að líta enn út eins og ég gerði árið 1987. Aðrir verða að dæma um það því ég hætti að hugsa um þetta, það var svo gaman að hitta gömlu bekkjarsystkinin.

En hvort sem fólk tók eftir meikinu á mér eður ei þá verður maður alltaf að reyna að halda andlitinu.

Víkurfréttir, 25. október 2007

föstudagur, 11. janúar 2008

Tengingin 1


Spurt er: Hver er tengingin á milli Ringo Starr og Davíðs Þórs Jónssonar?

Ps: Þar sem þetta er nýr liður á þessu bloggi þá er vert að taka það fram að auðvitað geta verið fleiri en ein tenging á milli manna, en ég er hins vegar bara, í hverri færslu, að leita að einni tengingu. Verðlaunin eru uppbyggjandi hrós frá mér og það myndu margir kalla mikið.

Kv, Svanur

Fan, Fan, Fan Of The Autobahn

"Þú ert meira svona efni í kafla í bók."

(Höf. Alfreð gítarleikari)

miðvikudagur, 9. janúar 2008

Á Loftinu


Kynnir: Ég hef margt séð og heyrt og kippi mér ekki mikið upp við smá mannlíf – en hvað um það förum og skoðum næsta dagskrárlið – förum reyndar ekkert – skellum bara teipinu í og slökum á – er það ekki litlu hrognkelsin mín? Æi kannski var þetta of væmið – the Reflex – gjörið svo vel.

Bóhem: Ætli það séu áhorfendur hérna? Hvað ef einhver skyldi sjá eitthvað sem hann ætti ekki að sjá eða jafnvel ekki skilja. Sjá og skilja, getum við aðgreint það auðveldlega. Sjáum við eitt og skiljum við annað, skiljum við sumt en sjáum annað ekki? Ég veit það ekki, skilningur og skynjun, sjón og áþreifanleiki eiga ekki alltaf saman. Gaman væri ef allir væru voða víðsýnir og fullir af kærleik. Svona líkt og Tarzan. Eða þrællinn Mandingo. Eitthvað er ekki eins og það á að vera. Sennilega miklu meira en bara eitthvað. Gaman væri hins vegar að fá skilgreiningu á því hvernig þetta allt saman á að vera, lífið köllum við það einu orði. Stærsta orð sem til er. Að bjóða til einhvers, veislu út af engu tilefni, sýningu án sérstaks markmiðs eða bara partý þar sem markmiðið er að sem flestir, vonandi allir, skemmti sér vel. Tilgangurinn er ekki endilega í mótvægi við tilgangsleysið því túlkunin hjá mönnunum er svo misjöfn og óvíst hvort þessi orð séu eitthvað höfð í huga hvert svo sem málið sé. Að nálgast hlutina á óvenjulegan hátt er drullugott, það finnst mér. Hver ætli ég sé og hvað tíðnisviði skyldi ég tilheyra? Hvað með ykkur?

Bolkur: Okkur, ég er bara hérna einn. Hvað ertu að tuða þarna, þykistu vera eitthvað heimspekifrík. Ertu að réttlæta eitthvað fyrir einhverjum og til hvers? Hefur þú ekki nógu mikið álit á fólki til að skilja og meðtaka það sem því er boðið uppá? Ertu einn af þeim sem þurfa alltaf að hafa vit fyrir öðrum, afskiptasamur með forræðishyggjuna á heilanum? Samt þekkjumst við.

sunnudagur, 6. janúar 2008

Gunni Ólafss.


Ég er í eftirpartýi hjá Guðrúnu Huldu frænku, á Álfaskeiðinu. Árið er 1995, apríl, og þrítugsafmæli Gísla Jens, bróður míns, er nýafstaðið. Haldið í reiðskemmu Sörla. Skrautlegt afmæli, er þá vægt til orða tekið. Blóðugt. Óboðnir gestir létu sjá sig. Stjáni mágur lét til sín taka sem og þeir frændur, Diddi vinur minn og Grímur, bróðir Palla píku. Löggan kom. Hollywood var ekki opið það kvöld. Eftirpartýið er líka skrautlegt og blóðugt. En í því tilviki komu tveir kvenmenn við sögu, á bílastæðinu fyrir utan. Nokkrir strákanna horfa á og hafa nokkuð gaman af. Önnur stelpan ekki. Síðan þá hefur margt breyst. Í eftirpartýinu eru margir góðir vinir og allir fullir. Þarna eru Aui og Dolli og Diddi en Örvar er ennþá í Köben að dást að Jack Nicholson og láta sig dreyma um að opna gleraugnaverslun á Suðurlandsbraut. Svo er auðvitað þarna íbúðarráðandinn, Guðrún Hulda, og einhverjar aðrar stelpur. Þarna er líka Gunni Ólafss. Hann lést snemma árs 2007 - á fertugasta og öðru aldursári. Langt, langt fyrir aldur fram. Ég og Gunni sitjum að sumbli langt fram eftir morgni og hlustum ótt og títt á Neil Young og lagið hans fallega, Philadelphia, úr samnefndri kvikmynd. Í ákveðinni endurtekningu, á ákveðnum stundum og með rétta fólkinu, er stundum sannleik að finna. Hann var þarna þessa nótt, þennan morgun. Ég sakna Gunna þótt ég hafi nú ekki hitt hann mjög oft á síðustu árunum áður en hann fór. Mjög mikið í hann spunnið, svo mikið í honum, góður maður, góður drengur, en hann lokaði margt inni. Eins og fleiri. Ég sakna Gunna. Sakna hans.

föstudagur, 4. janúar 2008

Pælingar 21


Keep on rockin´ in the FREE world

Geri mér grein fyrir því að með því að minnast hér á “Jesúauglýsinguna” er ég að bera í bakkafullan lækinn. En samt.

Þessi auglýsing frá Símanum hefur vakið athygli; mikið verið um hana rætt og ritað, og sitt sýnist hverjum. Trúarbrögð eru viðkvæmt málefni og auðvelt að fá viðbrögð fólks og athygli með því að hafa þau sem þema í auglýsingu. Og það er klárlega það sem markaðs- og auglýsingamenn eru að gera með þessari auglýsingu. Sumir segja líka að öll athygli sé af hinu góða. Er ekki sammála því.

En ég ætla ekki að ræða um sjálfa auglýsinguna. Það er búið að gera nóg af því og ekkert nema gott um það að segja.

Ég vil frekar vekja athygli á opinni umræðu. Það er jákvætt hjá okkur - þeim sem byggja þetta ágæta og harðbýla land - að geta rætt um slík mál, án þess að grípa til ofbeldis og/eða líflátshótana. Ég er auðvitað að vísa í mál sem margir muna eftir - enda ekki langt um liðið; allt brjálæðið þegar hinn danski Jótlandspóstur birti skopmyndir af Múhameð spámanni. Ég er ekki að taka undir slíka myndbirtingu, en viðbrögðin voru þó ótrúlega öfgafull og ekki sæmandi fyrir okkur sem þykjumst vera (og erum í flestum tilvikum) hugsandi verur. Sem betur fer erum við hér á Fróni ekki í þessum pakka. Vil meina að við aðhyllumst frekar opnar umræður og við þeim segi ég: Já takk.

Umræða og umræðupólitík er ekki alltaf að skila miklu en í flestum tilvikum skilar þetta einhverju jákvæðu. Hótanir og ofbeldi gera þveröfugt.

Umræða má ekki halda aftur af framförum, athöfnum og framkvæmdum - frekar stuðla að betri ákvörðunum og þar með ættu framkvæmdirnar að verða vitrænni. Þess vegna fögnum við opinni umræðu - hvort sem umræðuefnið er Jesú og Júdas eða fáránleiki forræðishyggju. Höfnum ofbeldi og líflátshótunum.

Er það ekki annars?

Víkurfréttir, 20. september 2007

miðvikudagur, 2. janúar 2008

þriðjudagur, 1. janúar 2008

2008

I've never sailed on a sea

I would not challenge a giant

I could not take on the church

I got a bad migraine

That lasted three long years

And the pills that I took

Made my fingers disappear

Svo mun tíminn skríða

Gleðilegt nýtt ár