Laugardaginn 22. desember, 2007 - Menningarblað/Lesbók Mbl.
Poppklassík: Eftir Svan Má Snorrason sms@utopia.is
Tvö andlit Tusk
Plata Fleetwood Mac, Rumours, kom út árið 1977 og er ein söluhæsta plata allra tíma; hefur selst í meira en 30 milljónum eintaka. Fjórar smáskífur af plötunni komust inn á topp 10 í Bandaríkjunum og óhætt er að segja að eftir útkomu plötunnar hafi Fleetwood Mac orðið ein vinsælasta hljómsveit heims.
Eins og gjarnan er eftir slíkar plötur vilja útgefendur og aðdáendur fá meira af því sama. En raunin varð önnur hjá Fleetwood Mac og átti gítarleikarinn og laga- og textahöfundurinn Lindsey Buckingham mestan þátt í því að næsta plata sem leit dagsins ljós, Tusk, var á ákveðinn hátt gjörólík Rumours. Auk Buckingham skipuðu hljómsveitina á þessum tíma bassaleikarinn John McVie, trommarinn Mick Fleetwood, lagasmiðurinn, hljómborðsleikarinn og söngkonan Christine McVie, og söngkonan og lagasmiðurinn Stevie Nicks.
Í maí 1978 fór Buckingham til fundar við Mick Fleetwood. Þess ber að geta að meðlimir Fleetwood Mac á þessum tíma voru sólgnir í áfengi og eiturlyf og almennt partýstand. Þrátt fyrir neysluna var Buckingham með áætlun; hann ætlaði að taka upp öll lögin sem hann átti á lager á eigin spýtur og kynna þau svo fyrir hljómsveitinni. Mick Fleetwood samþykkti það en hefur látið hafa þetta eftir sér: „Ég hélt að Lindsey væri orðin geggjaður, en við þurftum á hans sýn að halda, til að komast úr sporunum, svo ég sagði honum að kýla á þetta.“
Lindsey Buckingham sat ekki við orðin tóm, hann tók þegar til við að skapa nokkrar villtar og tilraunakenndar prufuupptökur (með hjálp nokkurra villtra og tilraunakenndra efna) í stúdíóinu sem hann var með heima hjá sér, og reyndar út um allt húsið. Meðal annars söng hann liggjandi á baðherbergisgólfinu og notaði pakka undan þerripappír fyrir trommur.
Hljómsveitin kom svo saman í Los Angeles Village Records ekki löngu síðar til þess að eyða næstu 13 mánuðum í það sem varð að lokum tvöfalda albúmið Tusk – kom út 19. október 1979.
Platan var óheyrilega dýr í framleiðslu, dýrasta plata sögunnar fram að þessu, og voru forráðamenn plötuútgáfunnar stressaðir yfir útkomunni. Þeir urðu enda foxillir þegar þeir heyrðu lokaútgáfuna því hér var ekki um að ræða framhald af Rumours. En þeir gátu ekkert tjónkað við meðlimi Fleetwood Mac, sem höfðu sitt fram, enda í afar sterkri stöðu eftir alla söluna á Rumours.
Tusk seldist lítið í samanburði við Rumours, eða í um fjórum milljónum eintaka, en skilaði þó framleiðslufénu til baka og gott betur, sem og þremur lögum á topp 20 – þeirra þekktust eru titillag plötunnar og Sara.
„Á þessum tíma héldu margir að við værum búin að tapa okkur,“ sagði Mick Fleetwood löngu eftir útgáfu Tusk. „En ég held að þessi plata hafi bjargað hljómsveitinni. Þetta sýndi okkur hvað við værum fær um að gera. Þetta er klikkuð plata en ég verð að segja að hún gæti verið sú besta sem við höfum sent frá okkur.“
Lög Lindsey Buckingham á Tusk eru gjörólík þeim lögum sem söngkonur og lagasmiðir hljómsveitarinnar, Christine McVie og Stevie Nicks, höfðu fram að færa. Lög hans á Tusk eru reyndar gríðarlega ólík þeim lögum sem flestir tengja við Fleetwood Mac þegar á heildarferil hljómsveitarinnar er litið.
Tvískipt tónlistin á Tusk er nú meginpartur af aðdráttarfli verksins og því vel við hæfi að það hafi verið tvöfalt. Lindsey Buckingham hljómar eins og hann standi á bjargbrún í ofsaveðri; á barmi taugaáfalls, og taugaáfall fékk hann stuttu eftir útkomu Tusk.
Þegar öllu er á botninn hvolft er eins og þetta sé sólóplata hjá Lindsey Buckingham sem er trufluð af og til af öðrum hljómsveitarmeðlimum; Það er eins og Stevie Nicks og Christine McVie séu með lögum sínum stöðugt að leggja kaldan þvottapoka á heitt enni Buckingham.
Til marks um hversu stór þáttur Buckingham var þá er á plötuumslaginu, og sjálfum plötunum, að finna þakkarskeyti frá hljómsveitinni til hans: „Special thanks from the band to Lindsey Buckingham.“ Ekki á hverjum degi sem slíkt er gert og segir þetta meira en mörg orð um hversu meðvitaðir aðrir meðlimir hljómsveitarinnar voru um að gerð þessarar plötu, og Lindsey þáttur Buckingham, væri skref í rétta átt – skref framávið.
Tusk er mjög merkileg plata því það gerist ekki á hverjum degi að svo vinsæl hljómsveit taki slíka áhættu eins og raunin var með Tusk. Útkoman er skemmtileg blanda af því besta sem einkennir feril Fleetwood Mac; frábærar melódíur í skotheldum flutningi, og svo þrælgóð, villt og tilraunakennd lög Buckingham í sérkennilegum en vel heppnuðum útsetningum.
Rumours er ein besta poppplata allra tíma. Ekki veikan blett á henni að finna og nánast öll lögin skotheldir smellir sem límast á heilann og eru enn í dag í mikilli spilun. En Tusk er höfuðsmíð Fleetwood Mac.
Þakkir til Lindsey.