laugardagur, 23. nóvember 2019

Trufflur

hún/hann baðar sig upp úr veggfóðruðum óendanleika sem á krónumáli kallast buff og billjardkjuði


mánudagur, 11. nóvember 2019

Án titils: Eða - Með sólgleraugu á sýningu (verk í eigu listamannsins).

- Ætlarðu virkilega með sólgleraugun á sýninguna spurði unglingsstúlkan föður sinn.
Besta vinkona hennar brosti og kuldinn gerði hvað hann gat til að halda okkur úti.
- Stundum þarf maður að vera með sólgleraugu, og mig langar ekki að taka þau af mér, og einu sinni var í tísku að vera með sólgleraugu á skemmtistöðum svaraði faðirinn um leið og þau gengu inná safnið.
Unglingsstúlkan glotti og hristi höfuðið, leit á vinkonu sína, og svo hlógu þær dátt.
Litla dúllan skipti sér ekkert af samræðum okkar en var áhugasöm um Daffy Duck.
Ég sagði við hana: Þú verður að spyrja listamanninn.

sunnudagur, 10. nóvember 2019

föstudagur, 8. nóvember 2019

Vantar meiri stöðugleika


Aðalsteinn Eyjólfsson tók nýverið við þjálfun kvennaliðs Stjörnunnar í handknattleik eftir eins árs dvöl í Þýskalandi þar sem hann þjálfaði efstudeildarlið TuS Weibern. Þrátt fyrir ungan aldur á Aðalsteinn þegar að baki athyglisverðan og nokkuð litríkan þjálfaraferil. Svanur Már Snorrason hitti Aðalstein og ræddi við hann um Þýskalandsdvölina og stöðu kvennahandboltans hér á landi.
Ég er fæddur og uppalinn Garðbæingur en er þó alltaf með annan fótinn í Hafnarfirði," segir Aðalsteinn aðspurður um uppruna sinn. Hann lék með Stjörnunni upp alla yngri flokkana.
"Ég var að æfa kornungur með meistaraflokki þegar Viggó [Sigurðsson] var með liðið, hélt síðan til Þýskalands og spilaði þar í eitt ár en sneri mér síðan að þjálfun." Áhugann á því fékk hann frá föður sínum, Eyjólfi Bragasyni, fyrrverandi leikmanni og þjálfara.

Ólst nánast upp í íþróttahúsi

"Það má segja að ég hafi alist upp í íþróttahúsi, pabbi var að spila og svo fór hann að þjálfa, en ég man miklu meira eftir þjálfunarhliðinni því ég var mjög ungur þegar hann var enn að spila. Ég man vel eftir mörgum spekingunum sitjandi heima í stofu að horfa á einhverjar spólur og skeggræða um ýmsa hluti í handboltanum. Það leið því ekki á löngu þar til maður þóttist vera farinn að hafa eitthvert vit á málunum. Síðan byrjaði ég sem aðstoðarmaður í yngri flokkunum og fetaði mig hægt og rólega áfram þann veg.
Fyrsta starfið hjá meistaraflokki var hjá Stjörnunni, tímabilið 2000-2001, sem aðstoðarþjálfari. Siggeir Magnússon var þá þjálfari og liðið komst í lokaúrslitin en beið þar lægri hlut gegn Haukum í oddaleik. Í kjölfarið var mér síðan boðin staða aðalþjálfara hjá Gróttu/KR, sem ég þáði og var þar við stjórnvölinn í eitt ár. Þetta var mjög ánægjulegur tími, liðið var ungt og efnilegt og stóð sig mjög vel. Ég var einnig að þjálfa unglingaflokkinn og við urðum Íslandsmeistarar. Síðan kom kallið frá Eyjum - þetta óvænta tilboð um að taka að mér þjálfun kvennaliðs ÍBV, og þótt mér hafi liðið mjög vel hjá Gróttu/KR, þá gat ég einfaldlega ekki annað en tekið því."
Undir stjórn Aðalsteins náði kvennalið ÍBV frábærum árangri tímabilið 2003-2004; liðið varð deildar-, bikar- og Íslandsmeistari og þá komst það í undanúrslit Áskorendakeppni Evrópu og vakti sá árangur athygli víða.
"Þessi tími í Vestmannaeyjum var alveg frábær, fólkið þarna er yndislegt og maður getur ekki annað en dáðst að kraftinum í því." En það átti ekki fyrir Aðalsteini að liggja að vera lengur en árið í Vestmannaeyjum, ekki frekar en hjá Gróttu/KR.

Annað óvænt kall - nú frá Þýskalandi

Í undanúrslitum Áskorendakeppni Evrópu dróst ÍBV á móti þýska liðinu Nürnberg. Þjálfari þess, Herbert Müller, átti spjall við Aðalstein eftir leikinn í Vestmannaeyjum.
"Þá spyr hann mig, nánast upp úr þurru, hvort ég hafi áhuga á að koma til Þýskalands og þjálfa. Ég sagðist alveg vera til í að skoða málin en hefði nú lítið hugsað mér til hreyfings enda liði mér afar vel í Eyjum. Hann hringdi svo í mig nokkrum dögum seinna og kom mér í samband við forráðamenn TuS Weibern og eftir það gengu hlutirnir nokkuð hratt fyrir sig.
Fyrr en varði var ég orðinn aðalþjálfari í efstu deild kvennahandboltans í Þýskalandi."

Virkilega lærdómsrík Þýskalandsdvöl

Hvernig var síðan dvölin í Þýskalandi, hún hlýtur að hafa verið þér nokkuð lærdómsrík?
"Það er alveg óhætt að segja að þetta ár hafi verið mér mjög lærdómsríkt á ýmsan hátt. Satt best að segja fór þetta allan tilfinningaskalann; það var mjög gaman, rosalega erfitt, leiðinlegt og svo framvegis," segir Aðalsteinn og hristir hausinn og það er greinilegt á honum að hlutirnir fóru ekki allir eins og hann gerði ráð fyrir.
"Aðstæður þarna voru daprar og umgjörðin í kringum liðið var léleg og það var einfaldlega mjög margt hjá félaginu sem stóðst ekki - því miður. En hins vegar, handboltalega séð, að spila við topplið með tvö til þrjú þúsund manns í húsinu var gríðarlega skemmtilegt og góð reynsla.
Menn læra auðvitað mjög mikið með því að takast á við svona erfið verkefni, sem þjálfari er ég ungur að árum og það var frábært að fá svona tækifæri þetta snemma á þjálfaraferlinum og mun vega þungt á metunum í reynslubankanum."

Það þarf að skoða allar aðstæður ofan í kjölinn

En varstu ekkert of fljótur á þér, að yfirgefa meistaralið á Íslandi og stökkva út í óvissuna í Þýskalandi?
"Það dreymir alla sem starfa við þjálfun að komast í þá aðstöðu að geta sinnt henni sem fullu starfi og haft vel upp úr því," segir Aðalsteinn og bætir við: "Síðan er annað mál, og það er að kunna að velja rétt - og það getur verið dálítið snúið. Ég gæti auðveldlega sagt í dag að ég hefði betur sleppt þessu, verið lengur úti í Eyjum, og fleira í þeim dúr. En ég ákvað að stökkva á þetta og þrátt fyrir að hlutirnir hafi ekki verið eins og þeir áttu að vera þá sé ég svo sannarlega ekki eftir þessari ákvörðun og þessum tíma.
Hins vegar segi ég einfaldlega, og tala af reynslu, að ef menn ætla sér að komast áfram í þessum geira, verða þeir að kanna allar aðstæður félagsins mjög vel, fjárhagslegan bakgrunn þess og fleiri þætti. Ég viðurkenni að þetta kynnti ég mér ekki nægilega vel; kannski var maður hræddur um að svona tækifæri byðist ekki aftur."

Staðan góð í þjálfaramálunum hér á landi

Aðalsteinn er nú kominn á fornar slóðir og mun þjálfa lið Stjörnunnar á næsta tímabili. Aðspurður segist honum lítast vel á það sem er að gerast í kvennaboltanum hér heima. "Þjálfaraflóran í kvennadeildinni er án efa með betra móti, það eru góðir og reynslumiklir þjálfarar við stjórnvölinn víða. Ágúst Jóhannsson hefur snúið aftur úr karlaboltanum, Kristján Halldórsson er kominn aftur á klakann og þá er Guðmundur Karlsson, hjá Haukum, maður sem gert hefur bæði karla- og kvennalið félagsins að Íslandsmeisturum. Ég held því að þjálfun liðanna í dag hafi sjaldan verið jafn góð. Síðan eru margir ungir og efnilegir þjálfarar hér sem fá oft mun fyrr tækifæri í alvörustörfum en gengur og gerist víða erlendis. Það skilar sér án efa í fleiri góðum þjálfurum.
Þá er mjög jákvætt að leikmenn eru að dreifa sér á æ fleiri lið og deildakeppnin hefur verið að harðna og hún mun án efa halda áfram að gera það í vetur. Liðin eru því jafnari en oftast áður og við erum að sjá fram á tíu liða deild næsta vetur og mér sýnist sem svo að átta af þeim geti stillt upp sterkum og samkeppnishæfum liðum."

Kvennalandsliðið skortir meiri stöðugleika

Hvað með kvennalandsliðið, hver er staðan á því og hvenær getum við átt von á að sjá það á einhverju stórmótanna?
"Það er lengi búið að tala um það, líklega ein tólf ár, að nú fari að koma að því að kvennalandsliðinu takist að brjótast í gegn og komast á stórmót. Það hefur hins vegar hingað til ekki tekist þótt oft hafi ekki vantað mikið upp á. Það er erfitt að svara því til og skilgreina af hverju þetta hefur ekki tekist. Það hafa komið upp sterkir árgangar nokkuð reglulega og það eru nokkrir sterkir á leiðinni en það hefur vantað upp á að þeir komi með jafnara millibili. Þar spilar frammistaða félaganna stærstan þátt; það vantar betri þjálfara í yngri flokkunum og markvissari stefnu. Þetta eru svo sem engin ný vísindi en engu að síður staðreynd sem ekki verður litið framhjá."
En er kvennalandsliðið í dag hreinlega nógu gott til þess að komast á stórmót?
"Það er ekki langt frá því. Það sem kvennalandsliðið skortir fyrst og fremst er meiri stöðugleiki. Við eigum marga mjög frambærilega leikmenn sem geta og eru tilbúnir að axla ábyrgð, mun fleiri en nokkurn tímann áður. Stefán Arnaldsson hefur unnið gott og markvisst starf og hefur verið duglegur að nota breiddina og með því náð að dreifa álaginu á leikmennina. Þegar meiri stöðugleika er náð getum við farið að búast við meira af landsliðinu. Það hafa verið að gerast jákvæðir hlutir í kringum liðið undanfarin ár og landsliðsnefnd kvenna á hrós skilið fyrir dugnað og það hafa sjaldan verið eins margir kvennalandsleikir á boðstólum og á undanförnum árum."

Heiðarleg dómgæsla hér á landi

Umræða um dómgæslu hér á landi hefur oft verið hávær og dómarar oft legið undir ámæli. Hvað skyldi Aðalsteinn segja um stöðu dómgæslunnar hér á landi?
"Ef þú hefðir spurt mig að þessu fyrir ári hefði ég svarað því til að hér á landi væru alltof fá góð dómarapör. En ég verð að segja eftir reynsluna í Þýskalandi, þar sem voru vissulega inná milli frábær dómarapör, að menn hér á landi eru mjög heiðarlegir í dómgæslunni og leggja sig virkilega alla fram, andstætt því sem oft var á boðstólum í Þýskalandi. Vissulega eru dómarapör hér á landi misgóð en þessi heiðarleiki, samviskusemi og áhugi er mjög mikils virði fyrir íþróttina," sagði Aðalsteinn Eyjólfsson.
svanur@mbl.is

"Erum komin í fremstu röð sjálfstæðra atvinnuleikhópa á Íslandi"

Rætt við Lárus Vilhjálmsson um stöðu leiklistarinnar í Hafnarfirði.

Gaflaraleikhúsið hefur vakið athygli fyrir sýningar sínar og starfsemi undanfarin ár. Framkvæmdastjóri leikhússins er Lárus Vilhjálmsson og Gaflari settist niður með honum til að ræða starfsemina sem óhætt er að segja að sé viðamikil, fjölbreytt og verður sífellt öflugri.

"Gaflaraleikhúsið hóf síðasta leikár á sama tíma og Hafnarfjarðarbær gerði nýjan þriggja ára samning við leikhúsið, og Gaflaraleikhúsið  tók algerlega yfir rekstur húsnæðisins, greiðslu leigu, hita og rafmagns frá Fasteignafélagi Hafnarfjarðarbæjar.  Styrkur til félagsins var því hækkaður í samræmi við þann kostnað sem bærinn hafði borið af húsnæðinu. Leikhúsið sótti um samstarfssamning við Mennta og menningarráðuneytið í gegnum Leiklistarráð í september og það var mikil ánægja meðal Gaflara þegar gerður var tveggja ára samstarfsamningur við leikhúsið í febrúar 2015, sem tryggir tíu milljón króna framlag á ári til verkefna á samningstímabilinu. Þetta sýnir mikla viðurkenningu á listrænu starfi Gaflaraleikhússins síðustu  ár og setur það í fremstu röð  sjálfstæðra atvinnuleikhópa á Íslandi."

Lárus er ánægður með síðasta leikár. "Eftir frábært gengi Unglingsins á Grímunni, íslensku leiklistarverðlaununum, þar sem sýningin fékk  tilnefningar fyrir Barnasýningu ársins og Sprota ársins, var Framtíðardeild leikhússins sett formlega á laggirnar í október með sýningunni Heila, Hjarta, Typpi. Var hún sýnd við ágæta aðsókn í haust.  Æfingar hófust á sýningunni Konubörnum í október og var hún frumsýnd í janúar. Hún fékk frábærar viðtökur og var komin í sextán sýningar og þrjú þúsund áhorfendur þegar sýningum lauk í vor.  Í nóvember var hafist handa við æfingar á Bakaraofninum eftir þá Gunnar Helgason og Felix Bergsson og var sýningin frumsýnd í lok febrúar 2015. Sýningin vann strax hug og hjörtu áhorfenda og þegar sýningum var hætt í apríl voru tólf sýningar að baki og tvö þúsund áhorfendur.  Á Grímunni hlaut  Bakaraofninn tilnefningu sem Barnasýning Ársins."

Það er mikið líf í kringum Gaflaraleikhúsið og gestir skipta þúsundum. "Það er vinsælt að vera með danssýningar og danskeppnir  í leikhúsinu, og það var einnig leigt út til leikhópa. Við fengum einnig erlenda leikhópa í heimsókn og í september 2014 kom Menningarhús Wroclawborgar í Póllandi með einleik í heimsókn.  Gaflaraleikhúsið er í samstarfi við Menningarhúsið um verkefnið „Ísland og Pólland gegn mismunun í listum“ þar sem blindum og sjónskertum er gert kleyft að njóta lista með sjónlýsingu. Leikfélag Hafnarfjarðar var með verk á fjölunum á síðasta leikári og setti upp leikritið Ubba Kóng í leikstjórn Ágústu Skúladóttur. Tónleikar og ýmsar uppákomur hafa einnig fengið rými í húsinu og gestir í húsinu á síðasta leikári voru liðlega ellefu þúsund."

Lárus segir mikinn metnað innan leikhússins. "Leikárið 2015-2016 byrjaði með menningarútrás: í byrjun júní var farið til Wroclaw í Póllandi þar sem Unglingurinn var sýndur fyrir blind og sjónskert ungmenni. Í ágúst fara unglingarnir síðan til Tianjin í Kína þar sem þeim er boðið að sýna á einni stærstu Listahátíð Ungmenna í heiminum. Í sumar hefur Gaflaraleikhúsið umsjón með listahóp Vinnuskólans sem ætlar að troða upp á hátíðum bæjarins og við skemmtiferðaskipin. Þau ætla líka að setja upp spunasýningu í leikhúsinu í ágúst. Í haust ætlar leikhúsið að halda áfram sýningum á Bakaraofninum og er stefnt að sýningum fram að áramótum, og einnig verður haldið áfram sýningum á Konubörnum. Stefnt er að frumsýningu nýs ungmennaverks í Framtíðardeildinni  í október og heldur Björk Jakobsdóttir um taumana." 

Í október hefjast æfingar á nýrri leikgerð Karls Ágústs Úlfssonar á „Góða dátanum Sveijk". sem verður í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, með Karli Ágústi í aðalhlutverki, og áætlað er að frumsýna verkið  í janúar  2016. Þá hefur Gaflaraleikhúsið tryggt sér sýningarrétt á verðlaunasýningunni „White“  frá Catherine Wheels leikhúsinu í Skotlandi.  "Verkið hefur farið sigurför um heiminn og er fyrir börn á aldrinum 2-4 ára; fjallar á skondinn og fróðlegan hátt með trúðslátum, tónlist og töfrabrögðum, um það hvernig  heimurinn fær lit. Sýningin, sem er leikstýrð af Gunnari Helgasyni og með Ágústu Skúladóttur og Virginiu Gillard í aðalhlutverkum, verður frumsýnd í febrúar." 

"Ýmislegt nýtt er í gangi," segir Lárus og bætir við: "Í fyrra gerði Gaflaraleikhúsið samning við Flensborgarskóla um að sjá um leiklistarkennslu, leikstjórn og uppsetningu á verki með nemendum skólans. Þetta verkefni er í fullum gangi og verður sýning skólans frumsýnd næsta vetur." 

Fyrir tveimur árum tók Gaflaraleikhúsið þátt í umsókn til Menningarstyrkja Evrópska Efnahagssvæðisins (EEA sjóðnum) með Menningarhúsinu  í Wroclaw í Póllandi, Bíó Paradís og Myndlistarskóla Reykjavíkur um verkefni  sem heitir „Ísland og Pólland vinna á móti aðskilnaði í listum“ og fjallar um að sýna leikverk með hljóðlýsingu fyrir blinda og sjónskerta.  "Verkefnið fékk þrjátíu milljón króna styrk frá EES sjóðnum og var fyrsta verkefnið sýnt í Bíó Paradís árið 2013. Gaflaraleikhúsið hefur á undanförnum árum myndað erlent tengslanet í gegnum þáttöku í Samtökum sjálfstæðu leikhúsanna og Assitej, samtökum leikhúsa fyrir unga áhorfendur. Gaflaraleikhúsið mun taka þátt í að skipuleggja  Alþjóðaleikhúshátið Assitej á Íslandi í apríl 2016 á Barnamenningarhátíð í Reykjavík."

Lárus segir að á síðasta leikári hafi hafist nýtt tímabil atvinnuleikhúss í Hafnarfirði með frumsýningum á þremur nýjum íslenskum verkum. "Fjárhagsstaða leikhússins með stuðningi bæjaryfirvalda og samstarfssamningi við Mennta og Menningarráðuneytið gerir það loksins mögulegt  að leikhúsið geti framleitt að minnsta kosti tvö verk á ári með þeim metnaði og gæðum sem sæmir atvinnuleikhúsi. Eins er nú loksins mögulegt að búa leikhúsið nútíma tæknibúnaði og plana framtíðina. Okkur finnst nú sem leikhúsið hafi náð þeim áfanga að taka sér sterka stöðu í leiklistarheiminum á Íslandi sem listrænn vettvangur og sem vinnustaður sviðsslistafólks. Okkur finnst einnig miða vel áfram í þeim markmiðum okkar að gera leikhúsið að leikhúsi bæjarbúa og hlúa að leiklistarupplifun og kennslu fyrir börn og ungmenni. Okkar aðalmarkmið er og verður að gera skemmtilegt og skapandi leikhús fyrir hafnfirðinga og nærsveitamenn. Það eru bjartir tímar framundan."