þriðjudagur, 20. október 2015

Stórtap gegn Spánverjum: Leikur íslenska handboltalandsliðsins hrundi á síðasta korterinu þar sem Spánverjar skoruðu 12 mörk gegn aðeins fjórum mörkum.

 Íslenska liðið hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum og á enn eftir að vinna leik á stórmóti á árinu

Íslendingar riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni við Spánverja í gær á Ólympíuleikunum í Aþenu.

Algjört hrun á lokakaflanum orsakaði átta marka tap eftir jafnræði lengstum þar sem Spánverjar höfðu reyndar ávallt nokkuð frumkvæði. Þar með hefur íslenska liðið tapað báðum leikjum sínum og það verður að segjast eins og er að hlutirnir líta ekki vel út og breytinga er þörf. Það er reyndar langt síðan að þörfin fyrir breytingar á landsliðinu fór að gera vart við sig en menn hafa bara leyst það með því að skella skollaeyrum við.

Allar afsakanirnar tilbúnar Eftir tapið í fyrsta leik gegn heimsmeisturum Króata var viðkvæðið aðallega það að Króatarnir væru svo góðir og það væri í raun ósköp eðlilegt að tapa fyrir þeim. Nú, svo er búið að hamra mikið á því hversu sterkur riðillinn er, nánast frá þeim degi sem dregið var í hann, þannig að allar afsakanirnar fyrir öllum töpunum voru tilbúnar fyrir löngu og nú verða þær notaðar óspart.

En að leiknum sjálfum. Spánverjar byrjuðu mun betur í leiknum og það tók okkar menn dágóðan tíma að komast í gírinn. Okkur tókst að jafna 4-4 og 10- 10 en það gekk ekkert að stíga skrefið til fulls og ná undirtökunum. Liðið fékk vissulega tækifæri til þess en þau voru illa nýtt. Staðan var 12-13 í hálfleik og þrátt fyrir slakan leik þá vorum við í það minnsta enn inni í leiknum því Spánverjarnir voru ekki heldur að gera neina rósir.

Síðari hálfleikur fór af stað á svipuðum nótum og sá fyrri og þeir spænsku voru fljótir að ná þriggja marka forskoti, 13-16. Það var þá sem íslenska liðið náði loks að sýna eitthvað af viti - þrjú mörk í röð hjá strákunum litu dagsins ljós og allt virtist vera að smella saman. Liðið fékk síðan tækifæri til að komast yfir en nýtti það ekki en þrátt fyrir það bjuggust fáir við því sem gerðist í kjölfarið.

Íslenska liðið fékk tvö góð tækifæri til að komast yfir í stöðunni 19-19 þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum en klúðruðu því. Eftir það rak hver hörmungin aðra og leikur liðsins gjörsamlega hrundi og spænska liðið hreinlega valtaði yfir það íslenska - niðurlægði það. Það var hræðilegt að fylgjast með hruni íslenska liðsins þennan seinni hluta síðari hálfleiksins þar sem það skoraði aðeins fjögur mörk gegn tólf. Bjargar- og úrræðalaust

Að sjá hversu bjargar- og úrræðalaust íslenska liðið var á þessum kafla undirstrikar hressilega, enn og aftur, að tími Guðmundar Guðmundssonar sem þjálfara þessa liðs, er liðinn. Sú staðreynd var reyndar flestum, ef ekki öllum, ljós, eftir hryllinginn á EM í Slóveníu í byrjun árs en samt skyldi förinni inn í svartnættið haldið áfram.

Gamla brýnið, Guðmundur Hrafnkelsson, var besti maður íslenska liðsins. Ólafur Stefánsson gerði hvað hann gat en var að venju tekinn afar föstum tökum. Einar Örn Jónsson sýndi gamalkunna takta en aðrir náðu ekki að sýna sitt rétta andlit.

Vonandi verður allt önnur og miklu betri frammistaða á boðstólum þegar við mætum Suður-Kóreumönnum í næsta leik. Þá verður örugglega við ramman reip að draga því Suður-Kórea gerði sér lítið fyrir og lagði Rússa að velli og væntanlega dugir ekkert annað en stórleikur af hálfu íslenska liðsins til að sigur eigi að nást gegn þeim. Íslenska liðið hefur nú leikið fimm leiki í stórmótum á árinu (3 á Evrópumótinu í Slóveníu og 2 á Ólympíuleikunum í Aþenu) og á enn eftir að fagna sigri.

ÞRIÐJUDAGUR 17. ágúst 2004

 sms@frettabladid.is

Engin ummæli: