mánudagur, 30. mars 2015

Þjónninn

Hún var með græn augu, þjónninn á veitingastaðnum.

Kjóllinn hennar svo fallega gulur og ég í gömlum strigaskóm.

Eftir að hafa komið með matseðilinn til mín horfði hún lengi út um gluggann á veitingahúsinu sem sneri til suðurs án þess að segja orð.

Ég horfði á hana. Fannst eins og hún væri að safna upplýsingum með augnaráði sínu, eða að eyða gömlum minningum.

Hún horfði svo á mig og sagðist verða að hætta að hugsa um fortíðina og einbeita sér að núinu.

Mig langaði að spyrja hana hvar hún hefði fengið þennan kjól en strigaskórnir fengu mig af því.
Ég sagði við hana að það væri óþarfi að hætta einhverju og hvað þá að fara að einbeita sér að einhverju. Nema henni fyndist hún knúin til þess.

Hún sagði svo ekki vera og spurði síðan hvort ég vildi panta, en ég fékk ekki færi á að svara, því maður á næsta borði kallaði á hana og hún fór til að sinna honum og skildi mig eftir.

Við sáumst ekki aftur fyrr en löngu síðar.

Engin ummæli: