1. Móseaðgreiningin, hjá Jan Assman, er í grófum dráttum sú að gyðingar, Ísraelsmenn, aðgreina sig frá öðrum, greina trú sína sem hina einu sönnu, hina algildandi sannleikstrú; þeir eru hinir útvöldu - guðs útvalda þjóð. Eingyðistrú tekur smám saman við af fjölgyðistrú og það umburðarlyndi sem var minnkar eða hverfur. Hinir útvöldu voru Ísraelsmenn og þeir stunda trúboð. Móseaðgreiningin gerist á löngum tíma, hún er vissulega kennd við Móse, en er þó ekki bundin honum algjörlega sem sögulegri persónu. Þessi mikla breyting frá fjölgyðistrú til eingyðistrúar, sem er mjög mikilvægur atburður, eða atburðir, í sögunni og skilgeinir að miklu leyti þá veröld sem við búum í, kannski meira en margt annað, byggist á aðgreiningu, kröfu - aðgreiningu á svokallaðri sannri trú og falskri trú. Eingyðistrúin byggist á þeirri algjöru kröfu að hún sé rétta trúin, sem byggist á algildum og/eða útilokandi sannleika. Þar er stillt upp sem andstæðum sönnum guði og fölskum guði, trú og vantrú, þekkingu og vanþekkingu, sannri kenningu og falskri kenningu. Áðurnefnt umburðarlyndi fjölgyðistrúarinnar minnkar eða hverfur og harka og ofbeldi í tengslum við trúboð, trúarskoðanir, fæirst í aukana. Eftir að Móseaðgreiningin er orðin til kemur sama krafa frá öðrum, fleiri, trúarbrögðum, ekki bara gyðingum, heldur til dæmis kristni og Búddisma.
2. Frá því að hinar svokölluðu miðaldir runnu sitt skeið og fram á nítjándu öldina var smám saman tekið að gera meiri og skýrari greinarmun á þeim sögum sem voru skáldaðar og öðrum sem áttu að segja frá raunverulegum atburðum.
Greinarmunurinn þróaðist í framhaldi af því að Evrópumenn tóku að aðhyllast þá trú að tilveran fylgdi óbreytanlegum náttúrulögmálum sem settu því algjör mörk hvað gæti gerst og hvað gæti ekki gerst og þannig urðu skilin skarpari milli raunveruleika og óraunveruleika.
Á sama tíma verður skáldsagan til sem viðurkennd og meðvituð, og mjög vinsæl listgrein, fólst það í að semja sögu með atburðum sem ekki hefðu gerst. Söguhyggjan kemur með ný sjónarmið á menningu og sögu og meiri áhersla lögð á afstæði menningar.
Sannleikurinn er afurð þess hóps og menningar sem setur fram hugmyndir um hann og saga mannkyns er ekki ein samfelld þróun heldur margvísleg svið ólíkra birtingarmynda menningar.
Johann Herder gagnrýnir hið hefðbundna sjónarhorn sem var einkennandi sem tilbúning sagnfræðinga nútímans. Hugmynd um eina heildstæða menningu eða þá innstu þrá mannsins er hafnað, engin menning ósvikin, menning er afurð. Hugmyndalegur grunnur að fjölmenningu er þarna settur fram.
Menning hefur ekki náð einhverjum hápunkti og mun ekki gera það - þetta er afstætt. Smekkur er það líka, hann tengist ólíkri hugsun og ólíkum svæðum , aðstæðum og menningu og lofti, hita, kulda.
3. Gagnvirka myndin er með tengsl og samskipti viðfangsefnis og þess er gerir myndina, í brennidepli. Sá sem gerir myndina getur breytt viðfangsefninu og haft mikil áhrif á framvindu hennar og eðlilega geta vaknað í kjölfarið siðferðilegar spurningar - gagnrýni í tengslum við að taka hluti/viðtöl úr samhengi. Í slíkum myndum eru viðtöl algeng og þeir sem í þeim eru búa gjarnan yfir sjálfsforræði.
Sjálfhverfa myndin er þannig að miðillinn og eiginleikar textans eru í forgrunni og það að setja fram „raunveruleikann“ er málið - tengsl áhorfenda og kvikmynda í forgrunni.
Skýringarmyndin, er útskýring, ekki könnun. Viðtöl fyrst og fremst notuð til að styðja við almennu útskýringu myndarinnar, þarna er að finna alvitran sögumann, eða rödd hans, og niðurstaðan er fyrirfram ákveðin. Sögulegar heimildarmyndir og náttúrulífsmyndir eru oftast í þessum flokki.
Könnunarmyndin er eins og ákveðið sjónarhorn, sjónarhorn flugunnar á veggnum. Fólkið sem vinnur að myndinni lætur eins lítið fyrir sér fara og hafa eins lítil áhrif og hægt er. Hér er oftar fjallað um samtíma en sögulegt efni. Langar tökur algengar og hljóð og mynd tekið upp samtímis.
Africa United er gagnvirk mynd, leikstjórinn sýnilegur, sem og átök milli fótboltamannanna. Meðlimir eru innflytjendur sem vinna láglaunastörf, eða atvinnulausir. Líf þeirra mótað af baráttu innflytjenda á nýjum stað - tungumálavandræði, yfirvöld, peningamál. Fótboltamennirnir trúa að ef þeim gangi vel í boltanum muni það hafa góð áhrif á líf þeirra.
Í myndinni er áhersla á jákvæðu hliðarnar. Skemmtileg mynd, en tekur tæpast á vandamálum fjölmenningar, t.d. ekki komið inná rasisma.
4. Samkvæmt grein Kristínar og Unnar Dísar er fjölmenning á Íslandi falin í því að tungumál er lykilatriði í aðlögun. Sett hefur verið fram gagnrýni á að fé til tungumálakennslu sé ekki nægjanlegt, og eigi að vera meira. Margir útlendingar vilja meira en 150 klukkustunda íslenskukennslu sem útlendingar fá án þess að greiða fyrir.
Útlendingar eru oft skilgreindir; pólverjar sterkir vinnumenn, asíubúar kurteisir, og fjölmenningu er hampað á fánadögum, en flestir innflytjendur eru í láglaunavinnu.
Fjölmenning er jákvætt, lýðræðislegt, hugtak sem felur í sér viðurkenningu á margbreytileika og ólíkum viðhorfum, að uppruni sé auður heildinni til hags.
Einangrun þjóðfélagshópa og kúgun valdalausra einstaklinga innan þeirra – t.d. kvenna undir fargi feðraveldis – á lítt skylt við fjölmenningu og það umburðarlyndi sem hana einkennir, því slík einangrun byggist á ótta. Á ótta þeirra sem eru einangraðir við vald þeirra sem kúga þá, og ótta þeirra sem hafa orðið öfgafullri pólitískri rétthugsun að bráð og hafa þess vegna ekki dug í sér til að verja þær hugsjónir er mannréttindi og jafnrétti byggjast á í flestum samfélögum.
Fjölmenning er hugmyndafræði sem felur í sér að í margbreytilegum samfélögum þurfi virk samskipti milli menningarhópa, að meðlimir ólíkra menningarhópa njóti sama réttar og hafi sömu möguleika; allir einstaklingar séu álitnir jafnir og að valdaskipting samfélagsins sé óháð uppruna og/eða menningu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli