laugardagur, 26. apríl 2014

Ég elska bókmenntagagnrýnendur með ljótar tennur

1. kafli

Blaðamennskan er undirstaðan, þá meina ég dagblöð, (netið hefur enn ekki tekið við sem afl sem mark er algjörlega takandi á, en það mun gerast) og á blaðamennskunni byggir allt annað í fjölmiðlum; tímarit voru sterk en eru í dag tímaskekkja (seljast illa) fyrir utan Séð & Heyrt sem fólk mun elska að elska í nokkurn tíma í viðbót (þótt ekkert sé blóðið lengur á tönnunum í þeim kjaftinum) enda finnst fólki fátt skemmtilegra en að gera grín að því sem það í laumi líkar best við.

Í dag er sjónvarp með yfirburði - stutt og snaggaraleg umfjöllun (ágæts fólks oftast) þar sem þú sérð þann sem talar og getur og munt dæma hann út frá útliti, hegðun og framkomu. Engu skiptir hversu dagblöð eru langt á undan í umfjöllun sinni - enginn tekur eftir neinu að ráði fyrr en Kastljós er búið að nappa - eða fá lánað (án leyfis?) - umfjölluninna. Útvarp er bíll á ferð, Siggi Hlö og góðar stundir inn á milli á Tvennunni og Gufunni. Rokkstöðvar búnar að vera.

2. kafli (útúrdúr)



Kynin eru ólík enda ekki úr sama efni ... ? Útilokum ekki efnafræði þótt sjálfur hafi ég valið eðlisfræði í Flensborg. Það skemmtilegasta við kynin er hversu ólík þau eru. Það er skemmtilegt. En kemur fjölmiðlum ekkert við. Þess vegna er svigi utan um orðið útúrdúr.

3. kafli

Síðast þegar ég leit upp úr moldinni blasti við mér að glæpasögurnar væru nú orðnar sú hámenning sem lágmenningin (ég hata að elska þessi tvö orð) eitt sinn var; og hámenningin orðin að lágmenningunni, eða öllu heldur afþreyingunni, sem stundum er ágæt.

Þegar hámenningin og lágmenningin skiptu um stöðu tóku fáir eftir því. En ef við létum hámenninguna og lágmenninguna mætast á miðri leið og reyndum að sameina þær eins og sveitafélögin myndi samfélagið fara á hliðina og svo á hvolf. Trébílar skjóta upp kollinum og skreyta baðherbergið eins og gular húsflugur og ég er að reyna að vera eins og Gyrðir.

4. kafli

Fólk smjattar í tengslum við útlit - allskonar útlit; það má smjatta - en það er viðbjóðslegt að smjatta (fólk getur ekki án fjölmiðla verið en gæti mögulega þraukað án bóka). Það sem fólk segir og skrifar er á þeirra eigin ábyrgð og útlit þess er málinu alls óviðkomandi (nema þú sért í sjónvarpsþætti).

Bókmenntagagnrýnendur með ljótar tennur (það er eitthvað við það sem ég fíla í botn) eða þáttastjórnendur í yfirvigt ættu ekki að vera gagnrýndir fyrir það. Frekar fyrir það sem þau segja, sé ástæða til þess. Og líka vera hrósað fyrir það sem þau segja, einnig ef ástæða er til þess. Annars ætti fólk bara að halda kjafti.

Menningarheimur Íslands er úthverfi Hollywood og Arnalds og Yrsu og allir mega leggja orð í belg á meðan það er fátt þar á bak við nema niðurrif og útlitspælingar. Enginn má segja neitt nema hann sé með fallegar og skjannahvítar tennur eða álíka heilbrigður í útliti og æskan hans Hitlers.

Við bíðum eftir flóðinu.

Ps: Ég er einn áttatíu og átta og hálfur og borða ekki morgunmat.

Svanur Már Snorrason, fyrrverandi knattspyrnuþjálfari hjá Val


Engin ummæli: