Bókaverðir sinna fjölbreyttu og
krefjandi starfi þar sem þjónustulund og fjölhæfni eru skilyrði.
Þá er kerfisþekkingar krafist.
Bókaverðir ganga í nánast öll
störf á bókasafni, önnur en skráningu gagna. Við sinnum
afgreiðslustörfum, leitum að gögnum fyrir viðskiptavini og
hjálpum þeim að nýta safnkostinn. Við hjálpum námsmönnum við
heimildaleit og grúskurum erum við innan handar, sem og margt annað
sem alltof langt mál væri að telja upp í stuttri grein.
Bókasöfn og starf bókavarða hafa á
stuttum tíma stokkið úr fornöld til nútímans. Því gæti
skilgreiningin á starfi bókavarða (eins og hún er sett fram á
vef Sambands íslenskra sveitarfélaga) verið frá öndverðri
síðustu öld því miðað við hana eiga bókaverðir að vera
hjálpsamir og góðir að raða bókum í hillur. Skilgreiningin er
svo úreld að það væri nær að bifvélavirkjar gerðu við
hestakerrur. Launin eru svo í fullkomnu samræmi við
starfslýsinguna, og er það með ólíkindum að þessari
starfsstétt skuli með svo áberandi og ósvífnum hætti haldið
niðri í kjallaranum. Um leið er það grátlegt að stéttin
skuli hafa sætt sig við þessi ömurlegu kjör áratugum saman.
Hvað veldur þessu? Getur það tengst
áratugalangri launakúgun kvenna? Þetta er kvennastarf, því
yfirgnæfandi meirihluti bókavarða á Íslandi eru konur, þótt
hér sé það karlmaður sem skrifar. Í kjölfarið verður því
að spyrja: Eru konur svona aumar í launabaráttu eða liggja hér
einhverjar annarlegar og kynjatengdar ástæður að baki? Gæti
ástæðan fyrir þessum aumu kjörum verið sú að þeir sem
stjórna í stéttarfélögunum, sveitarfélögunum og hjá ríkinu
hafi enga þekkingu eða skilning á starfi bókavarða? Eða er þeim
alveg skítsama?
Mánaðarlaun bókavarðar í 100%
starfi eru undir 200 þúsund krónum eftir skatta. Jafnvel þótt
þeir taki þá aukavinnu sem í boði er ná launin ekki 200 þúsund
krónum. Bókaverðir draga varla fram lífið með þessum launum,
sem eru litlu hærra en atvinnuleysisbætur.
Þetta getur ekki gengið svona. Fá
dæmi um verri laun finnast hér á landi. Það er skömm að því
að heil stétt af harðduglegu fólki skuli bera svo lítið úr
býtum fyrir mikla og krefjandi vinnu, og umhugsunarefni fyrir þá
sem velta vöngum yfir kynbundnum launamun.
Ég rýf þögnina með þeirri kröfu
að starf bókavarða verði metið að verðleikum. Að það verði
skilgreint á nýjan leik og fært til nútímans. Þá kröfu set ég
einnig fram að heiti starfsins skuli verða „þjónustufulltrúi“
með þeirri launahækkun sem því fylgir. Kjallaradvöl bókavarða
í starfslýsingu og launum skal ljúka.
Þessar kröfur mínar er hvorki
óeðlilegar né nýjar af nálinni: Það er fordæmi fyrir þeim.
Forstöðumaður bókasafns Mosfellsbæjar, Marta Hildur Richter,
fékk það í gegn með dugnaði sínum, og velvilja þáverandi
bæjarstjóra, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, að heiti bókavarða
skyldi breytt í þjónustufulltrúa. Með þeirri breytingu fylgdi
launahækkun um sjö flokka. Þarna voru tvær sterkar konur sem
stuðluðu að eðlilegri stöðu- og launahækkun bókavarða. Sama
staða er í Hafnarfirði í dag; kona er forstöðumaður
bókasafnsins og kona er bæjarstjóri, og báðar sterkar; sé
viljinn fyrir hendi hjá þeim er ekkert því til fyrirstöðu að
það sama gerist í Hafnarfirði, og um land allt, og það sem
gerðist í Mosfellsbæ á sínum tíma. Vilji er afl.
Það gerist ekkert með hvísli á
kaffistofum. Ef ekki er látið til skarar skríða á réttum stöðum
verður engu breytt. Það er komið að því að stétt bókavarða
vakni til vitundar og hætti að sætta sig við ömurleg launakjör.
Ég krefst úrbóta og trúi ekki öðru en að aðrir bókaverðir
taki undir með mér. Það skal gerast. Það mun gerast.
Svanur Már Snorrason er bókavörður
á bókasafni Hafnarfjarðar og verðandi þjónustufulltrúi.
Greinin birtist í Fréttablaðinu og á Vísi 28. febrúar 2014
Greinin birtist í Fréttablaðinu og á Vísi 28. febrúar 2014
Engin ummæli:
Skrifa ummæli