miðvikudagur, 5. mars 2014

Fólkið í kjallaranum

Að starfa sem bókavörður er gefandi, skemmtilegt og fjölbreytt starf. En launin eru ömurleg.

Bókaverðir sinna fjölbreyttu og krefjandi starfi þar sem þjónustulund og fjölhæfni eru skilyrði. Þá er kerfisþekkingar krafist.

Bókaverðir ganga í nánast öll störf á bókasafni, önnur en skráningu gagna. Við sinnum afgreiðslustörfum, leitum að gögnum fyrir viðskiptavini og hjálpum þeim að nýta safnkostinn. Við hjálpum námsmönnum við heimildaleit og grúskurum erum við innan handar, sem og margt annað sem alltof langt mál væri að telja upp í stuttri grein.

Bókasöfn og starf bókavarða hafa á stuttum tíma stokkið úr fornöld til nútímans. Því gæti skilgreiningin á starfi bókavarða (eins og hún er sett fram á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga) verið frá öndverðri síðustu öld því miðað við hana eiga bókaverðir að vera hjálpsamir og góðir að raða bókum í hillur. Skilgreiningin er svo úreld að það væri nær að bifvélavirkjar gerðu við hestakerrur. Launin eru svo í fullkomnu samræmi við starfslýsinguna, og er það með ólíkindum að þessari starfsstétt skuli með svo áberandi og ósvífnum hætti haldið niðri í kjallaranum. Um leið er það grátlegt að stéttin skuli hafa sætt sig við þessi ömurlegu kjör áratugum saman.

Hvað veldur þessu? Getur það tengst áratugalangri launakúgun kvenna? Þetta er kvennastarf, því yfirgnæfandi meirihluti bókavarða á Íslandi eru konur, þótt hér sé það karlmaður sem skrifar. Í kjölfarið verður því að spyrja: Eru konur svona aumar í launabaráttu eða liggja hér einhverjar annarlegar og kynjatengdar ástæður að baki? Gæti ástæðan fyrir þessum aumu kjörum verið sú að þeir sem stjórna í stéttarfélögunum, sveitarfélögunum og hjá ríkinu hafi enga þekkingu eða skilning á starfi bókavarða? Eða er þeim alveg skítsama?

Mánaðarlaun bókavarðar í 100% starfi eru undir 200 þúsund krónum eftir skatta. Jafnvel þótt þeir taki þá aukavinnu sem í boði er ná launin ekki 200 þúsund krónum. Bókaverðir draga varla fram lífið með þessum launum, sem eru litlu hærra en atvinnuleysisbætur.

Þetta getur ekki gengið svona. Fá dæmi um verri laun finnast hér á landi. Það er skömm að því að heil stétt af harðduglegu fólki skuli bera svo lítið úr býtum fyrir mikla og krefjandi vinnu, og umhugsunarefni fyrir þá sem velta vöngum yfir kynbundnum launamun.

Ég rýf þögnina með þeirri kröfu að starf bókavarða verði metið að verðleikum. Að það verði skilgreint á nýjan leik og fært til nútímans. Þá kröfu set ég einnig fram að heiti starfsins skuli verða „þjónustufulltrúi“ með þeirri launahækkun sem því fylgir. Kjallaradvöl bókavarða í starfslýsingu og launum skal ljúka.

Þessar kröfur mínar er hvorki óeðlilegar né nýjar af nálinni: Það er fordæmi fyrir þeim. Forstöðumaður bókasafns Mosfellsbæjar, Marta Hildur Richter, fékk það í gegn með dugnaði sínum, og velvilja þáverandi bæjarstjóra, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, að heiti bókavarða skyldi breytt í þjónustufulltrúa. Með þeirri breytingu fylgdi launahækkun um sjö flokka. Þarna voru tvær sterkar konur sem stuðluðu að eðlilegri stöðu- og launahækkun bókavarða. Sama staða er í Hafnarfirði í dag; kona er forstöðumaður bókasafnsins og kona er bæjarstjóri, og báðar sterkar; sé viljinn fyrir hendi hjá þeim er ekkert því til fyrirstöðu að það sama gerist í Hafnarfirði, og um land allt, og það sem gerðist í Mosfellsbæ á sínum tíma. Vilji er afl.

Það gerist ekkert með hvísli á kaffistofum. Ef ekki er látið til skarar skríða á réttum stöðum verður engu breytt. Það er komið að því að stétt bókavarða vakni til vitundar og hætti að sætta sig við ömurleg launakjör. Ég krefst úrbóta og trúi ekki öðru en að aðrir bókaverðir taki undir með mér. Það skal gerast. Það mun gerast.


Svanur Már Snorrason er bókavörður á bókasafni Hafnarfjarðar og verðandi þjónustufulltrúi.

Greinin birtist í Fréttablaðinu og á Vísi 28. febrúar 2014

sunnudagur, 2. mars 2014

“Íslendingar taka lífið ekki eins alvarlega og Þjóðverjar“

Bókavörðurinn og rithöfundurinn Brigitte Bjarnason segir Þjóðverja spennta fyrir íslensku álfatrúnni, en hún hefur nýverið gefið út bók um það efni. Brigitte kynntist ástinni á Íslandi og segir samfélagið hér barnvænt, sérstaklega á landsbyggðinni.


Ég er fædd árið 1959 í þýsku hafnarborginni Hamborg,“ segir Brigitte Bjarnason sem kom fyrst til Íslands árið 1982 sem skiptinemi og dvaldi hér í ár. Sú dvöl var örlagarík, því þá kynnstist hún manninum sínum, Jónasi Pétri Bjarnasyni, og þar með varð tenging hennar við Ísland varanleg - ástin tryggði hana.
Brigitte segir að ástæðan fyrir því að hún valdi Ísland fyrir skiptinám sitt hafi verið frekar einföld: “Ég verð að viðurkenna að Ísland var númer tvö hjá mér,” segir hún og hlær. “Mig langaði að fara sem skiptinemi til Nýja-Sjálands, en það gekk ekki eftir, þannig að Ísland varð fyrir valinu, og ég sé svo sannarlega ekki eftir að hafa farið til Íslands. En fyrst og fremst var ástæðan fyrir áhuga mínum á þessum tveimur löndum sú að mig langaði að fara til lands sem væri nær örugglega mjög ólíkt Þýskalandi – mig langaði að prófa eitthvað öðruvísi. Þegar til Íslands kom bjó ég í tíu mánuði á bóndabæ fyrir norðan, í Arnarneshreppi, og svo dvaldi ég í tvo mánuði í Reykjavík. Þá fór ég aftur til Þýskalands, en þar sem ég hafði kynnst Jónasi varð sú dvöl stutt og eftir nokkra mánuði flutti ég aftur til Íslands - í sömu sveit fyrir norðan - en bjó nú á öðrum bæ. Svo giftumst við Jónas og eignaðumst stelpuna okkar. En Jónasi langaði að prófa að búa í Þýskalandi og þangað fluttum við. Við bjuggum í sjö ár í Hamborg og strákarnar okkar tveir fæddust þar. En svo kom að því að okkur langaði að flytja til Íslands, og síðan árið 1992 hefur fjölskyldan búið hér á landi. Fyrst bjuggum við í Neskaupstað, en síðar einnig á Borgarfirði eystri, Egilsstöðum og Grundarfirði,“ segir Brigitte sem hefur ásamt fjölskyldu sinni verið búsett í Hafnarfirði frá árinu 2006, og þar starfar hún sem bókavörður á bókasafni bæjarins.

Brigitte byrjaði að þýða íslenskar þjóðsögur þegar hún bjó á Borgarfirði eystri og árið 2000 gaf hún út á eigin vegum þjóðsagnasafnið “Dort, wo die Elfenkönigin wohnt” (Þar sem álfadrottningin býr) sem innihélt sögur frá Vopnafirði, Borgarfirði eystri og Seyðisfirði. Og vöktu skrif Brigitte athygli.
Þýskir fjölmiðlar sýndu á þessum tíma mikinn áhuga á Borgarfirði eystri og álfatrúnni, og voru fegnir að finna þar fyrir þýskumælandi manneskju sem þekkti sögurnar. Smám saman bættust fleiri sögur í safnið; til dæmis frá Fljótsdalshéraði og Hafnarfirði. Í byrjun þessa árs kom svo út, hjá þýska forlaginu Acabus-Verlag Hamburg, bókin Auf den Spuren von Elfen und Trollen in Island (Á slóðum álfa og trölla á Íslandi). Auk sagna frá áðurnefndum stöðum eru í bókinni kaflar um álfatrú, ferðalýsingar, tillögur að gönguferðum og fleiri gagnlegar upplýsingar fyrir ferðafólk. Í Hafnarfjarðarkaflanum er meðal annars stutt lýsing á göngutúr í gegnum bæinn á slóðum álfa og huldufólks.“

Áður en bókin um slóðir álfa og trölla á Íslandi leit dagsins ljós kom út hjá sama forlagi smásagnasafn Brigitte, Dorsche haben traurige Auge (Þorskar hafa döpur augu) árið 2011. „Þar kemur Hafnarfjörður aðeins við sögu,“ segir Brigitte og heldur áfram: „Í sögunni Sind Sie es, Herr Kafka? er minnst á bókasafnið í Hafnarfirði, en þar hef ég unnið frá því að ég fluttist hingað í bæinn, ásamt því að sinna skrifum.“
Aðspurð segist Brigitte oftast finna efnið í sögur sínar í umhverfi sínu. „Sögurnar lýsa sterkri náttúruupplifun og örlögum fólks, sem geta vakið áhuga ferðafólks á Íslandi.“
Undanfarin ár hefur Brigitte líka skrifað greinar í bæjarblað Cuxhaven, sem er þýskur bær sem Hafnfirðingar kannast ágætlega við, því bærinn er einmitt vinabær Hafnarfjarðar. „Fyrir síðustu jól birti Cuxhaven Kurier sögu sem ég skrifaði um jólatré sem sent var í ferðalag til Íslands, og vakti hún mikla athygli í þessum vinabæ Hafnarfjarðar,“ segir Brigitte, en henni hefur meðal annars verið boðið til Sviss til að lesa úr verkum sínum.
En hver skyldi Brigitte finnast í stórum dráttum vera munurinn á þýsku samfélagi og því íslenska?
Íslendingar taka lífið og vinnuna ekki eins alvarlega og Þjóðverjar, og láta til dæmis ekki hávaða í börnum pirra sig. Það var frekar erfitt að búa með lítil börn í blokk í stórborg eins og Hamborg, þar sem ekkert annað fólk með börn bjó. Ísland er barnvænna en Þýskaland; börn hér á landi alast upp í öruggara umhverfi og hafa meira frelsi - sérstaklega úti á landi. Í atvinnulífinu eru gerðar meiri kröfur í Þýskalandi en hér, en þar vantar klárlega sveigjanleika á atvinnumarkaðinum. Á Íslandi getur þetta þrönga tengslanet sem fyrirfinnst hér stundum verið erfitt fyrir aðflutt fólk. Þó þú hafir góða menntun og starfsreynslu getur verið erfitt að fá vinnu við hæfi og komast almennilega inn í samfélagið, þegar enginn veit hverra manna þú ert.” 
Þar sem Brigitte hefur einnig reynslu af því að búa í dreifbýlinu og þéttbýlinu hér á landi er ekki úr vegi að spyrja hvort hún finni fyrir miklum mun þar á.
Já, það er munur. Þó fólkið á landsbyggðinni búi ekki eins nálægt hvort öðru og til dæmis á höfuðborgarsvæðinu, ríkir þar meiri hjálpsemi og samkennd, og daglegt líf er einfaldara. Lífsgæðakapphlaupið úti á landi er ekki eins áberandi og á höfuðborgarsvæðinu. Veðrið, náttúran og manneskjan skipta meira máli úti á landi. En það er auðvitað stór galli við landsbyggðina að atvinnumöguleikarnir eru mun takmarkaðri en á höfuðborgarsvæðinu.“
Stefnirðu á útgáfu verka þinna á íslensku?
Nei, ég er allavega ekki að hugsa mikið um það núna. Ég gæti trúað að sögurnar mínar séu áhugaverðari fyrir þýskumælandi lesendur en Íslendinga. En hver veit?, hlutirnir eiga það til að breytast.
Eru einhverjir sérstakir rithöfundar í uppáhaldi hjá þér?
Ég á mér engan sérstakan uppáhaldsrithöfund. Það eru til svo margir góðir höfundar. En þýsku rithöfundarnir Siefried Lenz og Hermann Hesse finnast mér áhugaverðir, eins og íslensku höfundarnir Gyrðir Elíasson og Auður Ava Ólafsdóttir,“ segir Brigitte að lokum.

Texti: Svanur Már Snorrason

Myndir: Úr einkasafni

laugardagur, 1. mars 2014