miðvikudagur, 13. mars 2013

Bréf frá Róm

Svanberg, ég er að hlusta á Are Friends Electric, í fyrsta sinn að ég held, hreinlega. Það hlýtur að marka einhvers konar tímamót. Ég man að þú mæltir með þessu lagi við mig þann 9. október árið 2006. Nú, sex árum síðar, þegar ekki er nema vika í heimkomu mína, set ég lagið á og nýt. Þetta er frá svipuðum tíma og Ayatollah Khomeini komst úr útlegðinni í Frakklandi til heimalandsins og Múslimaði alla með tölu - en það er önnur saga. Gaman að svona tengingum milli rokks og pólitíkur, Communards og leiðtogafundurinn í Höfða er nærtækt dæmi.

Lasagnað er í pottinum, fer þaðan í ofninn. Össa óbóstrák af hafði ég alveg gleymt þar til þú minntist á hann í pósti ekki alls fyrir löngu. Mér þótti alltaf dáldið vænt um það gerpi, þótt hann hafi verið misjafnlega liðinn á kaffistofunni fyrir þrálát besserwiss, en maður hafði nú bara gaman af þeim.

Nokkrir eru horfnir og einhverjir hverfa bráðum líka, en Svanberg er kominn aftur. Þegar dyr lokast opnast í öllu falli gluggi.

Vika eftir af Róm og ég held jafnvægi enn þá. Á ekki nema nokkur ljósrit eftir og svo flýg ég á slóðir Bowies, til Berlínar, þar sem ég gisti eina nótt á kostnað Iceland Express sem seinkuðu fluginu um sólarhring. Gæti verið verra, best að muna eftir að taka nótur fyrir öllu, þeir eiga að borga alltsaman, hótel, leigubíl, mat.

Gamall draumur rættist nýlega þegar ég sá Radiohead á tónleikum. Er ekki samur maður á eftir. Upplifun, get ég sagt þér. Þvílíkir tónleikar hjá þessari stórkostlegu hljómsveit. Vissirðu að Radiohead hefur starfað óslitið, með óbreyttri mannaskipan, frá árinu 1985? Á því ári átti gítarleikarinn Johnny Greenwood fjórtán ára afmæli. Ef eitthvert núlifandi band á séns í að slá met Rolling Stones í líftíma þá eru það þeir. Radiohead er líka enn að gera gott efni. Nýjasta platan, King of Limbs, er þrælgóð.

Hér í Róm hef ég einnig farið á tónleika með Tindersticks (bætti þannig fyrir konsertinn sem ég missti af árið 2008 á Nasa) og Goran Bregovic. Allt saman framúrskarandi stöff. Nýja platan með Tindersticks - The Something Rain - hefurðu heyrt hana? Ég bókstaflega dýrka verkið, punktur.

Njóttu sólsetranna í Hafnarfirði næstu dagana, Svanberg. Svo kem ég heim og við fáum okkur einn rjúkandi espressó saman. Eða freyðandi öl.

Þinn,

Snæbjörn

2 ummæli:

Hjalti sagði...

Svanberg, ekki skilja mig eftir svona. Mér finnst áhugavert að Stella í orlofi skuli hafa verði frumsýnd aðeins nokkrum vikum eftir að fyrri platan með Communards kom út. Ætluðum við ekki að fara í Aratungu eða hvað?

Svanur Már Snorrason sagði...

Jú, en við förum síðar - ég lofa því ...