laugardagur, 28. ágúst 2010

s


á morgun læt ég mig dreyma um ríkidæmi en þangað til læt ég mér nægja að dreyma um frið

fimmtudagur, 19. ágúst 2010

LAGÐI UPP Í ÆVINTÝRAFÖR!


Húsgagnaeigandinn Flísa-Gummi (28):

LAGÐI UPP Í ÆVINTÝRAFÖR!

Í lófa lagið!

Flísa-Gumma hafði frá barnæsku dreymt um að gerast ferðalangur. Nýverið lét hann drauminn rætast.

GAMAN:
"Þetta var skemmtilegt ferðalag."

Upplifun! "Ég var búinn að ganga lengi með þann draum í maganum að gerast ferðalangur, og þegar ég var að verða tuttugu og átta ára gamall ákvað ég að gefa sjálfum mér ferðalag í afmælisgjöf," segir Flísa-Gummi sem hafði fram að því aldrei komið út fyrir heimabæ sinn, Hjálmstorg.

"Það segir í raun allt sem segja þarf," segir Flísa-Gummi og fær sér væna slummu af íslensku neftóbaki og rekur hressilega við:

"Þetta er bara smá sunnanvindur, þú lætur þér ekkert bregða við hann."

En hvert skyldi Flísa-Gummi hafa farið?

"Fyrst, á fimmtudeginum, fór ég til höfuðborgarinnar, í sollinn þar. Svo lá leið til Danmerkur, Kaupmannahafnar, sem er bara risastór sollur. En þaðan lá leið til Potsdam í Þýskalandi, en þar skoðaði ég stríðsminjasafn, og það var alveg frábært. Ég var svo kominn heim í heiðardalinn á mánudagskvöldið - úrvinda af þreytu en hlaðinn reynslu og afar ánægður með upplifunina af mínu fyrsta alvöru ferðalagi."

TEXTI: BS
MYND: JUSTIN

þriðjudagur, 3. ágúst 2010

ÉG ER KALLAÐUR HERRA RUGLAÐUR!


Gunnar Tító Larsen (49):

ÉG ER KALLAÐUR HERRA RUGLAÐUR!

Gunnar heldur úti vinsælli bloggsíðu þar sem stendur ekki steinn yfir steini. Segir sig náskyldan Tító.

LYKLABORÐ OG SNJÓR:
"Elska þetta bæði."

Snar! "Ég er ekki frá Júgóslavíu," segir Gunnar og brosir og teygir sig í lakkrískonfektið sem blaðamaður færði honum að gjöf.

Eftir að hafa japlað góða stund á tveimur marsipanstykkjum biður hann um vatnsglas:

"Áttu kólesteról?" spyr hann um leið og vatnið er komið á borðið.

"Nei, annars, slepptu því bara. Stefnan er að gefa út skáldsögu um jólin og með hverju eintaki á að fylgja frír eplakassi."

Gunnar vill lítið ræða um innihald skáldsögunnar en segir nafnið ekkert leyndarmál.

"Hún mun heita Handáburður."

En af hverju mun fylgja eplakassi?

"Af því bara. En þó hefur mér alltaf fundist lyktin af eplum góð og lögun þeirra minnir mig á Empire State bygginguna. Og annað sem ég er hrifinn af, flauel og vísnatónlist - saman. Að vera flauelsklæddur og hlusta á vísnatónlist, helst norræna, er draumi líkast."

Gunnar frussar á blaðamann og hlær eins og vitfirringur.

"Ég raka mig alltaf á mánudögum og versla bara í Samkaup. Tralalalala."

TEXTI: MANUEL NORIEGA
MYND: LÍTILL JÚGÓSLAVI