þriðjudagur, 20. apríl 2010
sunnudagur, 18. apríl 2010
laugardagur, 10. apríl 2010
Séð og Heyrt Móment 19
SÖNN ÁST
„Ég elska hana. Þetta var ást við fyrstu sýn,“ sagði ungi háskólaneminn um leið og hann settist niður á uppáhaldsbarnum sínum.
„Hvað ertu að rugla,“ sagði atvinnulaus vinur hans sem var nokkrum árum eldri. „Það vita það allir sem þekkja eitthvað til lífsins að ást við fyrstu sýn er bull og rómantík er sölutrix sem byggir á óraunhæfum væntingum sem enginn getur staðið undir.“
Ungi háskólaneminn varð pirraður. „Af hverju þarftu að segja svona? Ertu að reyna að eyðileggja fyrir mér gleðina? Ertu öfundsjúkur af því að þú færð aldrei neitt?“
Atvinnulausi vinurinn lét sér hvergi bregða. „Heldurðu að sambönd snúist um sanna ást og rómantík? Djöfull geturðu verið vitlaus,“ sagði hann, stóð upp, fór á barinn og pantaði sér gin og tónik. Sneri síðan aftur í sætið með glott á vör. „Heldurðu í alvörunni að ást við fyrstu sýn sé til?“
„Ég veit það í hjarta mínu – mér er búið að líða þannig í viku,“ sagði ungi háskólaneminn. „Ég trúi á sanna og hreina ást án skilyrða – eilífa ást.“
Vinurinn sem var nokkrum árum eldri tæmdi úr glasinu í einum sopa. Ropaði svo duglega og sagði: „Það ætti að skjóta þig fyrir þessi orð. Beint í hjartastað. Lífið er spurning um völd, veraldleg og andleg; raunveruleikinn er oftast kaldur og grimmur en lífið er samt þess virði.“
Á sama andartaki og þessi orð féllu fékk ungi háskólaneminn SMS og hvítnaði í kjölfarið í framan. Í skilaboðunum stóð: „Held við séum ekki á sömu leið, bæ.“
Ungi háskólaneminn leit upp og sagði: „Ég hata það þegar þú hefur rétt fyrir þér.“
(Séð og Heyrt, 14. tbl. 2010)
fimmtudagur, 1. apríl 2010
E & L
Embó: Viltu labba með mér yfir götuna?
Labandó: Já, ef græni kallinn er í stuði.
Embó: Það er eins og það séu óvenju margar holur í malbikinu.
Labandó: Nei, og svo er líka búið að hækka verðið á bökunarpappír.
Embó: Tvisvar í þessari viku varð ég vitni að því að bíldekk sprakk.
Labandó: Uppáhaldsleikarinn minn heitir Hilmir Snær, svo finnst mér Pétur Einarsson mjög góður.
Embó: Jæja, þá erum við komnir yfir götuna.
Labandó: Hvenær er maður kominn yfir götu?
Embó: Heyrirðu í bjöllunni? Frímínúturnar eru búnar. Allir inn að læra.
Labandó: Mér fannst alltaf skemmtilegast að borða hálft fransbrauð og drekka kók í gleri og fara svo í tíma.
Embó: Einu sinn sá ég mann hjóla inn í jarðgöng.
Labandó: Manstu?, það var ég.
Embó: Hjólaðir þú inn í jarðgöng.
Labandó: Nei. Aldrei.
Embó: Það hefur þá verið einhver annar.
Labandó: Já.
Embó: Þetta er ágætt, á meðan kuldinn er ekki minni.
Séð og Heyrt Móment 18
LÍTIL TYPPI?
„Hver ætli hafi verið mesti kappinn í Íslendingasögunum,“ spurði ungi umbrotsmaðurinn í vinnunni hjá mér og ekki stóð á svörum vinnufélaganna.
„Það hlýtur að hafa verið Egill Skallagrímsson, það hafa fáir komist með tærnar þar sem hann hafði hælana,“ sagði fjölfróða konan á næsta borði.
„Hygg ég að það hafi verið Sturla Sighvatsson. Hann var rosalegur kappi, fáir flottari,“ sagði elsti umbrotsmaðurinn á svæðinu með sinni djúpu og heimspekilegu rödd.
Einhver nefndi Gunnar á Hlíðarenda og Gísli Súrsson barst í tal.
Mér varð á að blanda mér í slaginn. Hélt að innlegg mitt myndi auka, jafnvel dýpka umræðuna.
„Þórður kakali var nú líklega meiri hetja en Sturla, bróðir hans, Sighvatsson,“ sagði ég en bætti svo snögglega við.
„Held samt að Grettir sterki hafi verið mestur allra fornkappa. Það gat enginn mannlegur máttur unnið á honum, það varð að beita svindli til að fella hann.“
Þá gall allt í einu í ungu umbrotsstúlkunni sem hafði fram að þessu ekkert látið á sér kræla.
„Nei, ekki Grettir, hann var með lítið typpi.“
Í kjölfarið ríkti einkennileg þögn, fullyrðingunni mótmælti enginn og umræðan dó.
Ég fór svo að hugsa hvort þetta sé sá mælikvarði sem mest er marktækur, og fræðimenn ættu jafnvel að fara að nota, og í kjölfarið mögulega endurmeta sögur af íslenskum fornköppum?
Sko, hefði Gunnar á Hlíðarenda nokkuð getað stokkið hæð sína í fullum herklæðum ef slátur hans hefði verið stórt eða í stærri kantinum? Hefði það ekki bara þvælst fyrir og bardagafærni hans því minnkað í samræmi við stærðina?
Var hann því með lítið typpi? Og þarafleiðandi ekki hetja?
Þegar stórt er spurt ...
(Séð og Heyrt, 12. tbl. 2010)
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)