föstudagur, 24. júlí 2009

Séð og Heyrt Móment 5


AF ÞVÍ AÐ ÞÚ VILT ÞAÐ

„Calm down, Miss San Francisco," sagði djúpraddaði maðurinn og teygði sig í pilluglasið.
Var lengi að bjástra við lokið, blótaði nokkuð og svitadroparnir á enninu runnu niður andlitið. Að lokum tókst honum að opna glasið. Renndi niður tveimur pillum með viskíi, Jameson.

„Þetta er allt að koma," sagði hann við stúlkuna sem bar með sér yfirbragð vonleysis.

En það var samt von að finna í rödd hennar, og líf. „Þú ert bara lygari, dópisti og aumingi, líka helvítis fyllibytta. Nenni ekki að hanga með þér lengur, ég veit ekki hvað ég hef verið að hugsa, hvað ég er að hugsa."

Hún stóð upp, ræskti sig og hrækti svo á djúpraddaða manninn, sem sýndi engin viðbrögð. Beið bara eftir að pillurnar næðu fullri virkun. Þá ætlaði hann að gera eitthvað.

Ískaldur sagði hann þó lágri röddu: „Þú getur ekkert. Ekki án mín. Þú ert ekkert án mín. Ég held þér uppi því þú nennir ekki að vinna og þú nennir ekki að vinna af því að ég held þér uppi."

Stúlkan, sem í þessum töluðum orðum var á leið út af hótelherbergi þeirra, staldraði við.

„Af hverju þarftu að segja svona? Af hverju ertu svona vondur við mig? Hvað hef ég gert þér?"

Djúpraddaði maðurinn leit í átt til hennar, óræður á svip, og sagði: „Af því að þú vilt það."

Stúlkan lokaði hurðinni. Dró andann djúpt og gekk svo að djúpraddaða manninum og sagði lágum rómi: „Fyrirgefðu."

Séð og Heyrt (26. tbl. - 2009)

föstudagur, 17. júlí 2009

Gullkorn Vals Áka 2

"Mig dreymdi að það væri rjómakanína. Svo breyttist hún aftur í venjulegan strák. Svo breyttist hún aftur í rjómakanínu. Hún var í blárri peysu."

(Höf. Valur Áki Svansson, 26.2. 2008)
Ps: Með Val Áka á myndinni er Sísí frænka

Sjálfsmynd I/Texti

Taka mynd af rúðu. Taka mynd af sjálfum sér um leið. Lít betur út en venjulega á myndum á þessari mynd. Ánægður með þessa mynd - sjálfsmynd. Tók mynd af ferðalaginu og sjálfum mér að taka mynd af ferðalaginu. Allt með einum litlum smelli. Rammaði inn.

mánudagur, 6. júlí 2009

Klipping


"Búinn að fara í frí?" Klipparinn spurði. Ég svaraði. "Þetta er fyrsti dagurinn. Tek núna tvær vikur, sé svo til hvenær ég tek rest."

"Ég keyrði á Höfn um síðustu helgi," sagði hann.

"Er það ekki svipað langt að fara og til Akureyrar," spurði ég um leið og slatti af hárinu fauk af.

"Jú, þetta er svipuð keyrsla. En landslagið er mjög ólíkt."

Lána Mána

Tunglið hóaði í mig þegar ég var rétt við það að sofna. Bað mig um að lána sér brauðhleif og nokkra bjóra. Það sagði að það þyrfti í raun ekkert annað, en því væri reyndar illa við að fá lánað, en nú væru blankheitin algjör. Ég sagði að það væri ekkert mál, ég ætti bæði brauðhleif og nokkra bjóra. Og svo sagði ég tunglinu að þetta væri gjöf frá mér, því við yrðum öll stundum blönk.
(Mynd: Ásdís Erla)

sunnudagur, 5. júlí 2009

Horfið til mín

Í fjörunni hlupu þau og ærsluðust en gáfu sér líka tíma til að líta til ljósmyndarans sem elskar þau út af lífinu.

Í borginni Dómínó


Þarna var spilaður góður djass, loftið skemmtilega lævi blandið og fólkið athyglisvert. Svo margir með augun í einhverju furðulegu ástandi, eða útliti. Sljótt en samt gat augnaráðið stungið.
Mikið um litalinsur og greinilegt að fólki hafði ekki verið sagt frá því að slæmt sé að hafa þær í dögum eða vikum saman. Augun verða eitthvað svo þrútin og flott - furðuleg. Og er það ekki bara allt í lagi, allavega ef mið er tekið af verðhækkunum?

Teygði

Þegar ég teygði mig í plastpokann tók ég eftir rykinu í horninu og mundi þá eftir að ryksugupokinn var fullur.

Poppið var ekki gott


Fór í bíó.