laugardagur, 27. september 2008

Nostalgía


Upprifjun minninga styrkir vinabönd. Held ég. Tilfinning. Að hugsa hlýlega til einhvers sem maður hittir ekki oft í dag, einhvern sem maður var kannski með í bekk, vinur. Hugsar til hans til dæmis þegar maður heyrir lag sem maður hefur ekki heyrt lengi. Hlýjar hugsanir skila sér. Líka hinar hugsanirnar. Þessar hlýju vil ég, taka við og gefa. Skrýtið hvernig maður fær stundum nostalgíufiðring í magann; fiðrildi. Veit ekki hvort maður er glaður eða dapur. Er bæði á sama tíma. Dettur inní gamla tíma - sér þá ljóslifandi fyrir sér - upplifir þá að nýju. En bara í huganum, langar að endurupplifa að öllu leyti en getur ekki nema að takmörkuðu leyti, og þá kemur ákveðinn sársauki, stingur í magann. Þetta er búið og kemur ekki aftur, og auðvitað veit maður að svoleiðis verður það að vera. Annars verður stöðnun viðvarandi ástand. Held að þegar til kastanna kæmi vildi enginn vera alltaf ungur né lifa að eilífu. En það er bara eitthvað svo sérstakt við það að rifja upp gamla tíma - eitthvað svo mannlegt, minningar sem ylja, sem kalla fram eftirsjá, sársauka, en líka gleði og tilhlökkun og óútskýranlega endurnýjun.

1 ummæli:

Hjalti sagði...

Aaa, Alphaville. Þeir eru enn starfandi og meiraðsegja enn frægir sums staðar, a.m.k. í Japan. Eða eins og skáldið sagði:

Hvít var rjómalindin ljós,
löngu fyrir daga mína.
Áður en sólin fór að skína
og silungsveiði hófst í Kjós.

Veistu, Svanur, að þegar þú byrjaðir að vinna með Haffa í Súkkat, meira að segja þá varstu byrjaður að upplifa nostalgíuna. Þið deilduð henni, þið Haffi, enda á svipuðum aldri. Það er dálítið sorglegt, en samt satt, að stór hluti ævi okkar skuli fara í eftirsjá eftir liðinni tíð. En fólk höndlar þetta auðvitað misvel.