þriðjudagur, 14. janúar 2025

Guðfaðir NBA á Íslandi


Þegar ég var að verða fimmtán ára sá ég leik í NBA í beinni útsendingu í fyrsta sinn, leikur sex í lokaúrslitunum þar sem Boston Celtics tryggðu sér titilinn með sigri á Houston Rockets í Boston Garden. Þetta var á Íslandi, en eina leiðin til að sjá bandarískan körfubolta í beinni útsendingu var að komast til „Bandaríkjanna á Íslandi“ –  það er að segja, inn á svæði bandaríska hersins í Keflavík, og þú þurftir að hafa „sambönd“ til að komast inn á svæði hersins.

Árið var 1986 og áhugi minn á NBA var alltaf að aukast.

Um haustið 1986 gerðust tveir skemmtilegir hlutir sem ég man alltaf vel eftir (enda auðvelt, það gerðist ekki margt og hvað þá skemmtilegt á Íslandi á þessum tíma), leiðtogafundurinn í Höfða þar sem Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna og Michael Gorbachev æðsti maður Sovétríkjanna sálugu hittust og ræddu málin í þaula eina helgi í október á Íslandi; markmiðið var að samband þessara tveggja stórvelda myndi styrkjast; að fækka kjarnorkuvopnum; ræða um múrinn í Berlín og það að reyna að stöðva kalda stríðið í eitt skipti fyrir öll.

Ekkert af þessu tókst enda taka slíkir hlutir oftast langan tíma – en komið hefur í ljós með tíð og tíma að þessi leiðtogafundur var vel heppnaður; þarna var lagður grunnurinn að betri samskiptum stórveldanna sem kom í ljós á næstu fundum þessara öldnu leiðtoga stórveldanna.

Hitt skemmtilega sem gerðist á þessum tíma var að Stöð 2 fór í „loftið“ og loksins var hægt að horfa á skemmtilegt afþreyingarefni í sjónvarpinu án þess að leigja myndbandsspólur, sem var frekar dýr gjörningur.

En það var ekki bara afþreyingarefnið sem heillaði – og þá er ég að tala um kvikmyndir og sjónvarpsþætti sem hið „kommúníska“ RÚV sýndi ekki, en þar var helst boðið uppá myndir eftir Ingmar Bergmann og Andrei Tarkovsky, og ef þú vildir komast í enn meira stuð var alltaf hægt að halla sér að vikulega þættinum Maður er nefndur.

Nei, það besta sem Stöð 2 hefur nokkurn tímann gert er að hafa byrjað að sýna frá leikjum í NBA. Og NBA leikir eru ekkert afþreyingarefni; þeir eru menningarleg upplifun.

En bíðum aðeins, við skulum alveg hafa það á hreinu að Stöð 2 var ekki fyrst til að sýna NBA hér á Íslandi, þótt margir haldi það. Guðfaðir NBA á Íslandi er enginn annar en Bjarni Fel, íþróttafréttamaður hjá RÚV í áratugi. Já, Bjarni Fel.

Á Íslandi var fyrst byrjað að sýna frá leikjum í NBA árið 1982, fjórum árum áður en Stöð 2 kom til sögunnar. Þetta var afar einfalt; RÚV keypti lokaúrslitin í NBA og sýndi alla leikina í þeim á árunum 1982 til 1985, alls 23 leikir. Árið 1986 var sýnt frá tveimur fyrstu leikjum lokaúrslitanna – en síðan ekki söguna meir, serían var aldrei kláruð á RÚV. Og aldrei hefur RÚV sýnt aftur frá NBA enda keypti Stöð 2 sjónvarpsréttinn haustið 1986. Hefur haldið honum að mestu síðan.

Á þessum árum frá 1982 til 1986 var þetta einfalt – spólunni var skellt í tækið hjá RÚV og leikirnir sýndir frá a til ö og bandarísku þulirnir fengu að láta ljós sitt skína. Á þessum tíma voru þrjú lið áberandi best í NBA – þótt mörg önnur lið hafi auðvitað verið góð. Liðin þrjú voru Los Angeles Lakers, Philadelphia 76ers og Boston Celtics. Það var ekki fyrr en í lokaúrslitunum 1986 að maður sá annað lið en þessi þrjú áðurnefndu – en þá komu Houston Rockets öllum á óvart og skelltu Los Angeles Lakers 4-1 í úrslitum vesturstrandarinnar. Sögu Houston Rockets á þessum tíma verður gerð skil í pistli síðar.

En eftir að Stöð 2 keypti réttinn á sýningum frá leikjum í NBA haustið 1986 fór maður að sjá leiki með öðrum liðum liðum, í deildarkeppninni; Atlanta Hawks, Utah Jazz (fyrsti leikurinn sem Stöð 2 sýndi var einmitt á milli þessara liða í Salt Lake City) og fleiri og fleiri. Fyrst um sinn sýndi Stöð 2 NBA leiki á laugardögum, en í ársbyrjun 1987 voru leikirnir færðir til og voru sýndir á þriðjudagskvöldum, frekar seint, byrjuðu annaðhvort klukkan tíu eða ellefu. Frá upphafi útsendinganna og í mörg ár á eftir voru það þeir Heimir Karlsson og Einar Bollason sem lýstu leikjunum, síðar bættist Valtýr Björn Valtýsson í hópinn. Um vorið 1987 var síðan sýnt frá tveimur leikjum í lokaúrslitunum, á milli Los Angeles Lakers og Boston Celtics; sýndir voru leikir fjögur og sex og lýsingin var á íslensku með bandarísku þulina í bakgrunni.

Á næstu árum fór áhuginn á NBA vaxandi og Stöð 2 hélt áfram að sýna frá leikjum í deildinni og smám saman þróaðist dagskrárgerðin. Við Íslendingar fengum fyrst að sjá NBA leiki í beinni útsendingu á Stöð 2 sumarið 1991; þá voru allir leikir lokaúrslitanna þetta árið á milli Chicago Bulls og Los Angeles Lakers sýndir í beinni útsendingu. Það var mikil bylting. Þið þekkið þá sögu.

En þetta byrjaði allt sumarið 1982 þegar Bjarni Fel tók þá ákvörðun (væntanlega í samráði við aðra) að sýna frá NBA. Hann er því hinn eini sanni Guðfaðir NBA hér á Íslandi. Það ber að þakka og sýnir hversu framsýnn og áhugasamur Bjarni Fel var um allskyns íþróttir; hann hafði nefnilega ekki bara áhuga á enska boltanum, en margir tengja Bjarna Fel við rosalegan áhugann á enska boltanum hér á landi í áratugi. Bjarni Fel mun ávallt eiga stóran sess í sjónvarpssögu íþróttaútsendinga á Íslandi og það ber að þakka og er hér gert:

Takk Bjarni.

Ps: Takk líka Einar Bollason, Heimir Karlsson og Valtýr Björn Valtýsson.

Engin ummæli: