mánudagur, 7. október 2013

Persónur undir jökli

Biskup Íslands sendir ungan guðfræðing út á Snæfellsnes til skýrslugerðar um ástand trúmála þar. Biskup segir: “Vér biðjum um skýrslu, það er alt og sumt.” (18). Með þessa fyrirskipun í farteskinu og segulbandstæki fer hinn ungi guðfræðingur, sem fyrst er nefndur umboðsmaður biskups en síðan einfaldlega Umbi, af stað vestur á Snæfellsnes til að grafast fyrir um hvað sé að gerast í trúmálum þar.

Í bók Halldórs Laxness, Kristnihald undir jökli, er að finna mikið af áhrifaríkum náttúrulýsingum, litríkum og skemmtilegum persónum og meitluðum samtölum þeirra. Þessar persónur sögunnar eru stundum, jafnvel oft, öfgakenndar og þær binda allajafna ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn þeirra.

Í þessari ritgerð er ætlunin að skoða aðeins nokkrar af þessum litríku persónum, fyrst aukapersónurnar, svo aðalpersónur en einkum sóknarprestinn, séra Jón Prímus, sem mörgum hefur orðið tilefni aðhláturs en jafnframt alvarlegra umþenkinga um lífið og tilgang þess og tilveruna í heild.

Aðeins um aukapersónur

Helgi á Torfhvalastöðum minnir stundum á persónu úr einhverjum farsa eftir Dario Fo; hann týnir þeim gráa en finnur þann rauða. Hann er öfgafullur maður og sannfærður, trúir fullkomlega á heimspeki Dr. Sýngmanns. Hann hefur gefið út bindin hans sex en fékk ekki krónu til baka. Hann var þó svo sem ekki að gera sér rellu út af því!
Tumi Jónsen, safnaðarformaður, er maður sem kippir sér ekki upp við hvað sem er. Hann er að mörgu leyti líkur séra Jóni, til dæmis hvað varðar skoðanir þeirra á trúmálum. Tal þeirra og tilsvör eru svipuð, einkum þó þegar þeir eru spurðir um sjálfa sig:

Umbi: Eruð þér Tumi Jónsen safnaðarformaður?
Bóndi: Svo er sagt. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti. (47)

Umbi: Ég vona að þér séuð þó séra Jón.
Séra Jón: Það er af og frá. (97)

Tumi Jónsen er ekkert ósáttur við ástand kirkju og trúmála eins og það er í söfnuðinum, enda sjálfur safnaðarformaður, og allra síst er hann ósáttur við gjörðir séra Jóns eins og eftirfarandi samræður vitna um:

Umbi: Svo einu má gilda þó gleymist að jarða.
Tumi Jónsen: Sumum finst það kannski dálítið skrýtið. Þó veit ég ekki betur en allir komist á sinn stað á endanum.
Umbi: Og kenningin góð hjá honum?
Tumi Jónsen: O seisei, ekki er hætt við hann tali af sér hann séra Jón.
Umbi: Á hvað leggur hann áherslu í kenníngunni?
Tumi Jónsen: Við höfum ekki orðið varir við að hann séra Jón hefði neina sérstaka kenníngu; og það líkar okkur vel. (50-51)

Þetta samtal segir allnokkuð um persónu og embættisstörf séra Jóns og um leið lýsir það vel því afslappaða andrúmslofti sem ríkir í trúmálum í söfnuði séra Jóns. Þar er enginn “besservisser”, engin óskeikul kenning að fara eftir, ekkert virðist skipta máli nema þetta eðlilega og daglega amstur safnaðarbarnanna að hafa í sig og á í sátt við Guð og náttúruna.

Hnallþóra virðist ekki vera alveg eins og fólk er flest. Hún bakar kökur og tertur allan daginn og virðist eins og sprottin upp úr húsinu sem hún býr í. Kannski hefur hún það hlutverk að vera persónugervingur þeirra kvenna sem Laxness fannst einkenna húsfreyjur til sveita á Íslandi á ferðum sínum. Þær buðu ævinlega upp á kaffi og tertur og töldu saltfisk, kjöt og velling, þennan venjulega sveitamat, ekki við hæfi handa gestum. Auðvelt er að skilja löngun Umba í fiskbita og þrumara með smjöri eftir allt köku- og tertuátið hjá Hnallþóru.

Dr. Sýngmann, alheimsgrósséri, sem nánar verður vikið að á eftir, hefur haft með sér til Íslands þrjá menn, er Umbi nefnir beitarhúsamenn. Þeir eru lærisveinar Dr. Sýngmanns og eru einnig svokallaðir lífmagnarar. Þeirra málpípa er Saknússemm II og virðist sem hann sé þeirrar skoðunar að maðurinn hati sjálfan sig svo mikið að hann verði ávallt að vera í einhverju stríði, en um leið sé þetta mikla hatur tákn um mjög djúpa ást mannsins á sjálfum sér:

Umbi: Hversvegna viljið þér drepa þessa fugla?
Saknússemm 2.: Af því við elskum þá Sir. (147)

Með beitarhúsamönnunum er komin skírskotun í Víetnamstríðið og því er kannski hægt að líta á þá sem einhverskonar erindreka Bandaríkjanna. Eftirfarandi orð Saknússemms II má þó líta á sem ádeilu á Bandaríkjamenn og kannski stríðsbrölt almennt:

Af hverju ferðumst við bandaríkjamenn yfir hálfan hnöttinn með flóknustu byssur veraldarsögunnar að skjóta nakta kotbændur í landi sem við vitum ekki hvað heitir? Það er af því við elskum þessa menn einsog sjálfa okkur. Við dáum þá. Við borgum fegnir miljón dollara fyrir að mega skjóta einn bónda. (150)

Aðeins um aðalpersónur

Deilt hefur verið um það hver sé aðalpersóna sögunnar, enda erfitt að gera upp á milli. Hins vegar eru í aðalhlutverkunum þau séra Jón prímus, Umbi, Dr. Goodman Sýngmann og Úa. Þau geta öll talist aðalpersónur sögunnar, hvert með sínum hætti.

Dr. Sýngmann, alheimsgrósséri, er sú persóna sem einna minnst kemur við sögu í eigin persónu, en einna mest er rætt um. Hann er að mörgu leyti hreyfiafl sögunnar því hann er óhemju ríkur og getur veitt sér, að því er best verður séð, allt sem honum sýnist. Svo virðist sem hann geti framkvæmt lífganir, það er reist upp frá dauðum, og heimspeki hans er þess eðlis að hún hreyfir við kirkjuyfirvöldum í Reykjavík. Hann tekur sköpunarverkið ekki gilt og reynir af fremsta megni að sigrast á þeim takmörkunum sem okkur, mannfólkinu, er gert að sætta sig við.
Dr. Sýngmann kemur fram sem neikvæð og afvegaleidd persóna. Hann er vopnasali og vopnasmiður. Um hann segir Jódínus Álfberg, einn af hans fylgimönnum:

Penínga! Gróssérinn! Veistu ekki að hann hefur stórbúðir um allan heim? Veistu ekki að hann er sá sem fann upp trixið í kafbátinn og fallhlífina? (121)

Sumir hafa séð í Dr. Sýngmann sjálfan Kölska. Aðrir sjá hann sem fulltrúa einhvers heimsveldis. Sjálfur hefur hann birt, í sex binda ritverkinu sínu, lausn á lífsgátunni. Einhvernveginn fer samt svo að þessi mikli maður hverfur út í vindinn þegar hann óvænt og öllum að óvörum gefur upp öndina kvöldinu áður en lífgunarleiðangur hans átti að leggja upp á jökulinn.

Umbi er aðalpersóna að því leyti að hann segir sjálfa söguna. Hann verður fyrir mestum áhrifum í þessari ógleymanlegu ferð undir jökulinn, enda ungur og óreyndur. Hann kemst í kynni við allskyns fólk og furðuverur á meðan á ferð hans stendur, enda reynist honum erfitt að halda sjálfum sér utan við skýrsluna, eins og biskup mælti fyrir. Í samtölum sínum við fólk gerir hann oft á tíðum lítið úr sjálfum sér, stöðu sinni og gjörðum. Að vissu leyti er það eðlilegt vegna þess að menn og konur þarna fyrir vestan ávarpa hann gjarnan sem biskup sjálfan, eða svo gott sem.
En Umbi er ekki bara umboðsmaður biskups heldur er hann líka “umboðsmaður lesandans ekki síður en biskupsins og við verðum að rýna í það “bréf” sem til okkar berst frá honum” (Ástráður Eysteinsson 1993: 172).
Í lok sögunnar stendur Umbi nokkurn veginn í sömu sporunum og séra Jón þrjátíu og fimm árum fyrr, þegar Úa hafði hlaupist á brott frá honum. Umbi glatar í sögunni sakleysi sínu og um leið hlutleysi sem skýrslugerðarmaður þegar Úa flekar hann, óreyndan og hreinlífan.

Þá er komið að henni Úu sem sennilega er áhrifamesta persóna sögunnar. Hvað hún heitir réttu nafni skiptir ekki öllu máli en hún hefur mjög djúpstæð áhrif, að því er virðist, á flestar þær þær persónur sem hún kemst í kynni við.
Hún er kona séra Jóns, en hefur ekki verið hjá honum í áratugi. Ekki er ósennilegt að ætla að það sé ástæðan fyrir því að séra Jón er eins og hann er. Þegar Úa, ung að árum, hljópst á brott með Dr. Sýngmann, þá má segja að sú ákvörðun hennar sé skiljanleg að mörgu leyti. Það er öllu meira spennandi að halda út í heim með milljónamæringi en eyða ævinni á Íslandi í útnesjaprestkalli lengst norður í rassgati. En þegar Úa kemur loks aftur til Íslands þrjátíu og fimm árum síðar, daginn eftir útför Dr. Sýngmanns og er orðinn einkaerfingi auðæva hans, þá lætur hún eins og ekkert hafi í skorist:

Umbi: Biskup vill heyra um status.
Konan: Status, hvað er það?
Umbi: Hvað þér séuð.
Konan: Ég er prestskonan hérna. (263)

Það lítur því út fyrir að þrátt fyrir allt sem hún hafði reynt erlendis, meðal annars rekið hóruhús í Argentínu, verið nunna í spænsku klaustri og líka gift kona og móðir í Bandaríkjunum, þá hafi hún fyrst og síðast litið á sig sem prestskonu undir jökli.

Aðeins um séra Jón Prímus

Séra Jón Prímus er án efa orðin ein allra þekktasta sögupersóna í íslenskum bókmenntum fyrr og síðar. Það er hann sem hefur vakið ugg meðal kirkjunnar manna, ekki fyrir gjörðir sínar heldur fremur fyrir það sem hann hefur ekki gert. Hann gerir næstum því ekkert sem venjulegur prestur í góðu brauði ætti að gera. Lítið sem ekkert er um messur, jarðarfarir og skírnir og önnur þau skyldustörf sem hann ætti að inna af hendi. Hann er í raun sannkallað náttúrubarn, maður sem virðist una sér best einn og engum háður, vinnandi smáviðvik hér og þar og fær í staðinn smá bita af borðum samtíðarmanna sinna. Fábreytni og einfaldleiki eru hans ær og kýr og svo virðist sem hann sé sáttur við lífið og tilveruna. Ekkert raskar ró hans og hann hefur svör á reiðum höndum við öllum spurningum. En ekki hefur séra Jón alltaf verið svona maður. Hvað er það sem gert hefur hann að þeim manni sem hann er orðinn?

Í bókinni fáum við að vita að þrjátíu og fimm árum fyrr stingur verðandi eiginkona hans af, rétt fyrir brúðkaupið, með besta vini hans til útlanda. Menn þurfa að vera ansi sterkir persónuleikar til að þola slíkt áfall og sennilega er ekki til sá maður sem ekki léti svona lagað eitthvað á sig fá.
Jón Prímus tekur lífið gilt en hvergi segir að hann taki manninn gildan eða samfélagið, enda hefur hann að ýmsu leyti sagt sig úr lögum við samfélagslega starfshætti.” (Ástráður Eysteinsson 1993: 174).

Með hliðsjón af því áfalli sem séra Jón varð fyrir, skoðunum hans og lífsháttum, er ekki úr vegi að álíta að hann hafi staðnað. Svo virðist sem hann hafi einfaldlega dregið sig inn í eigin skel og ekki getað tekist á við þetta áfall. Að minnsta kosti virðist hann ekkert hafa gert í því að reyna að ná Úu til sín aftur. Lausn séra Jóns gagnvart þessu áfalli virðist vera sú að ná sáttum við menn og skepnur og sjálfa náttúruna. Séra Jón er ekki maður sem slær til baka heldur býður hann hinn vangann og hann nýtur virðingar og er elskaður af sóknarbörnum sínum, eða eins og segir í bréfi Tuma Jónsen safnaðarformanns:

Ekki skepnubarn í þessu plássi mundi kjósa að vera einn dag án séra Jóns. Mundi öll bygðin harmi lostin ef skert væri hár á höfði slíkum öðlingi. (15)

En hvers vegna skyldi svo vera? Gæti það ekki verið vegna þess að séra Jón treður engu upp á menn en er engu að síður til staðar ef menn þurfa að leita á hans náðir? Að vísu, eins og áður hefur verið bent á, er hann ekki fljótur að afgreiða málin, en gerir það að lokum. Menn komast á sinn stað.

Séra Jóni verður tíðrætt um snjótittlinga:

Um snjótitlíng hef ég aungvu að bæta við það sem ég sagði um daginn við úngan mann sem var að leita að sannleikanum: ef til er almætti í himingeimnum, þá er það í snjótitlíngum. Hvað sem á dynur, snjótitlíngurinn lifir af; stórhríðarnar eru ekki fyr um götur geingnar en hann er orðinn sólskríkja. (230)

Það má í raun segja að þessi lýsing eigi einnig mjög vel við um séra Jón sjálfan. Hann hefur staðið af sér lífsins ólgusjó og sæst við menn og skepnur og ber ekki kala til neins þó svo að hann hafi verið mikið særður af fólki sér nákomnu; hann minnir að sumu leyti á Krist og boðun hans um fyrirgefningu.
Þá verður séra Jóni nokkuð tíðrætt um samkomulag, sem kemur ekki á óvart, því það sem Úa gerði var einmitt að rjúfa þeirra samkomulag um giftingu. En séra Jón virðist frekar hafa styrkst við þetta heitrof í þeirri trú að samkomulag sé það sem málin gangi út á í samskiptum manna:                                                                                                                                                             
Séra Jón: Alt líf rís á samkomulagi. Ég hélt þér vissuð að við verðum að koma okkur saman um hvort við eigum að lifa; annars verður stríð. (295)


Heimildaskrá:

Ástráður Eysteinsson. 1993. “Í fuglabjargi skáldsögunnar.” Halldórsstefna,
bls. 171-185. Rit Stofnunnar Sigurðar Nordals 2, Reykjavík

Gunnar Kristjánsson. 1993. “Liljugrös og járningar.” Halldórsstefna,
bls. 146-156. Rit Stofnunnar Sigurðar Nordals 2, Reykjavík.

Halldór Laxness. 1990. Kristnihald undir jökli. Vaka-Helgafell, Reykjavík.

Peter Hallberg. 1969. “Kristnihald undir jökli.” Skírnir, 143. ár, bls. 80-104.