Gangandi
íkorni
Óhætt er að segja að greining né
gagnrýni á þessari skáldsögu sé ekki svo auðvelt verkefni því
hún er einkennilega skrýtin.
Á yfirborðinu byggir sagan á mjög einfaldri
hugmynd um strák sem leiðist tilveran í kringum og teiknar sig í
bókstaflegum skilningi inn í aðra tilveru sem er ólík að því
leyti að þar búa dýr en ekki menn. Að
öðru leyti eru þessar tvær tilverur í lífi stráksins ekki svo
ólíkar því dýrin eru gædd mannlegum eiginleikum, þau hugsa,
tala, ganga eins og menn, drekka kaffi, ræða málin og yfirleitt
gera alla þá hversdagslegu hluti sem einkenna svo menn og mannlegt
líf. Það er ekkert dýrslegt í fari, nema það dýrslega sem
einkennir manninn, þau bíta ekki gras hugsunarlaust eða bryðja
hnetur án þess að vita fullkomlega af því. Allt sem þau gera
einkennist af mannlegri hegðun, bæði það góða og það illa. Í
raun eru dýrin menn miklu frekar en mennirnir eru dýr eins og
stundum er sagt.
Sagan er tvískipt eftir efni hennar. Það eru
tveir heimar í henni og tvær aðalpersónur; heimur
hversdagsleikans og heimur ævintýrisins og strákur að nafni
Sigmar sem vantar athygli og nafnlaus íkorni sem er ofsóttur. Í
raun má sjá söguna sem tvær aðskildar sögur sem tengjast í
nokkurskonar ummyndun eða draumi:
Fyrst
teikna ég flugvél og hákarl lónandi í gruggugu hafi undir. Síðan
færi ég mig til á blaðinu. Ég leggst þungt á tréblýantinn og
vanda mig. Allt í einu er orðinn til strákofi með garðskækli
við, lítil lognvær tjörn, og íkorni.
...
Ég teikna ekki meira. Þess í stað færi ég mig yfir á stóra
auða svæðið og byrja að skrifa það sem ég sé gerast fyrir
augunum á mér; íkorninn fer að hreyfast. ... Ég skrifa, og er
þegar kominn hálfur inní myndina. Þarna er hlýtt loftslag,
fallegt landslag, og mig langar ekki til baka. ... Ég fer lengra,
ég stíg skrefið til fulls, ég er orðinn að íkorna.
Þegar
Björg kemur til að segja mér að rýma fyrir kaffibollum og
kökudiskum, sér hún engan. (Gangandi íkorni, bls. 61-62).
Heimur drengsins í sögunni er ósköp venjulegur heimur og
tilbreytingarlaus. Hann býr hjá eldri hjónum á sveitabæ rétt
utan við þorp. Aðrar persónur koma varla við sögu. Þetta er
lokaður og kyrrstæður heimur þar sem drengurinn þarf að finna
upp á leikjum til að drepa tímann. Þessir leikir eru vægast sagt
undarlegir, til dæmis að hanga í brúarhandriði, fara inn í
gamalt tundurdufl og æpa, banka veggina í herberginu tímunum saman
og gleypa högl!
Drengurinn
er sífellt að prófa eitthvað sem eiginlega má ekki. Hann sýnir
á sér andfélagslega hegðun, eitthvað sem kallast skrýtið í
samfélaginu og aðrir viðurkenna ekki sem gott.
Heimur íkornans í sögunni er ósköp tilbreytingarlaus. Það
gerist í raun lítið annað þar en samræður og kaffidrykkja. En
íkornanum steðjar samt sem áður ógn af einhverju óskilgreindu,
það er eins og það liggi í loftinu og bíði við hvert fótmál
hans. Það er brotist inn í húsið hans, hann er eltur um
húsagarða að kvöldlagi:
Hann átti skamman spöl ófarinn heim þegar út úr
húsasundi stökk skuggalegur fyrirburður. Hann var með vasaljós
undir hökunni og lýsti upp fésið og skerpti djöfullega drættina.
Veran nálgaðist hálfbogin, smákjöltrandi. “He, he, þá er ég
loksins komin, he.” Íkorninn stífnaði. “He, he, nú kemstu
ekki undan.” Íkorninn skimaði angistarfullur í kringum sig.
Síðan stökk hann eldsnöggt inn í nærliggjandi garð. (Bls. 84).
Það er eins og þessi óskilgreinda ógn sé
eingöngu í borginni og eigi heima þar. Með henni tekst Gyrði að
skapa mjög hrollvekjukennda sögu í þessu saklausa umhverfi þar
sem gæludýr hittast og ræða málin yfir kaffibolla eða tei og
það er í raun erfitt að trúa því að við þessar barnalegu
aðstæður verði til svo mikil ógn.
Ógnin er líka til í heimi drengsins og birtist í skrýtnum
leikjum hans. Þar er hætta við hvert fótmál. Í lok sögunnar
sér drengurinn nafn Allans Quatermain, en það er nafn á
aðalpersónu í sögunni “Námur Salómons konungs”. Þar er
dauðinn við hvert fótmál í myrkvuðum frumskógum og eyðimörkum.
Kannski má með þessu sjá einhverjar hliðstæður með lífi
drengsins og ferðum Allans Quatermain og virkar mjög skrýtið og
auðvitað skemmtilegt.
Í myndmáli bókarinnar kemur þessi ógn skýrt fram, til dæmis
strax í upphafi sögunnar birtist hún í líki risaköngulóar:
Draumsólir
vekja mig, andartak er ég óviss um staðsetningu mína í þessum
eða hinum heiminum, ljósakrónan kemur mér á sporið; áþekk
risavöxnum dordingli spinnur hún sig niður að mér. Þráðbeint.
(Bls. 7).
En samt er eins og þessi ógn sé um leið
barnslega saklaus. Hún gerist í höfðinu á svona tíu ára gömlum
dreng og skrýtnum íkorna sem allir krakkar eiga að hafa gaman að.
Lýsingar í sögunni eru mjög myndrænar og nánast allar bundnar
þessari ógn; trébílar eru eins og hræddar kanínur og undir
stiganum lúrir ryksugan eins og steinfiskur í sjávarhelli. Allar
slíkar lýsingar ýta undir öryggisleysi drengsins og gera
umhverfið spennandi og hættulegt. Þessi ótti og
tilbreytingarleysið er allsráðandi og er
í sterkri andstöðu við þá mynd bókarinnar sem gefur henni
barnaleg einkenni og gerir hana að nokkurskonar barnabók sem hún
er að vissu leyti, en þó ekki að öllu leyti því ógnin er
auðvitað ekkert barnaleg. En hvort þessi ótti er bara til í
höfðinu á drengnum eða í umhverfinu skal ósagt látið en á
það bent að í raun skiptir það engu máli því hann er samur
fyrir drengnum og íkornanum þrátt fyrir það.
Sagan heitir Gangandi íkorni og má ef til vill fullyrða að í
nafninu felist tvískipting sögunnar, þar sem orðið gangandi
vísar meira til mannlegra eiginleika enda er það sett saman með
dýraheiti sem ýtir undir og undirstrikar mannlega eiginleika
íkornans. Hann er settur saman úr manni og dýri, nokkurskonar
manndýr, hvað svo sem það er og virkar mjög prófessorslegur og
auðvitað saklaus í öllum gerðum og hugsunum en veruleikinn
umhverfis hann er fullur af ógn.
Sagan skiptist einnig í tvennt með tilliti til frásagnarhátts.
Fyrri hluti sögunnar er sagður í 1. persónu en sá síðari í 3.
persónu. Þetta er auðvitað tæknilegt atriði en nauðsynlegt til
aðgreiningar á heimi þessara tveggja líku en um leið ólíku
persóna.
Sagan hefst og endar á sama orðinu, Draumsólir.
Orðið er sterkt og hlaðið merkingu og er undirstaðan í draumi
sögunnar eða veruleika. Sagan endar kannski með þeim hætti að
draumsólir veki hann í annað sinn eða bara svæfa hann, þær
loka frásögninni og eru nauðsynlegur hlekkur á milli þessara
tveggja heima í lífi drengsins. Án þeirra verður ekkert ævintýri
til og líf drengsins litlaust og án spennu – en þannig á líf
ekki að vera.