sunnudagur, 28. nóvember 2010
Niðurlægingarskeið David Bowie – ekki svo niðurlægjandi!
David Bowie á farsælan og litríkan tónlistarferil að baki sem enn sér ekki fyrir endann á. Hér verður aðeins stiklað á stóru á ferli þessa breska listamanns, en mest fjallað um níunda áratuginn sem oft hefur verið nefndur niðurlægingarskeið í æviferli hans. Segja má að styrkur hans sem tónlistarmanns endurspeglist hvað best og mest á þessu æviskeiði því að jafnvel þá sendir hann frá sér lög sem teljast gott innlegg í tónlistarlífið og lifa ágætu lífi enn í dag þótt þau séu talsvert frá hans best verkum.
Staðan hjá David Bowie í dag er góð þótt hún sé nokkuð ólík þeim sem hann hefur áður verið í. Netpælingar hans, myndlistarsköpun og svo sala á hlutabréfum í sjálfum sér hafa vakið athygli og þá hefur hann sannað sig sem ágætur leikari, bæði í kvikmyndum og á leiksviði. Því er orðið listamaður, eða jafnvel fjöllistamaður, notað til jafns um hann eins og tónlistarmaður. Þó er hann og verður fyrst og fremst tónlistarmaður og þannig verður hans líklega alltaf minnst.
Bowieuppsveifla
Síðustu tvær afurðir David Bowie, Heathen, sem kom út í fyrra og Reality, sem er nýkominn út, hafa báðar yfirleitt hlotið mjög góða dóma og selst talsvert betur en önnur síðustu verk kappans svo sem, 1. Outside sem kom út árið 1995, Earthling, 1997 og Hours, 1999. Allar fengu þessar plötur ágæta dóma en tónlistin var þó ekki sérlega vinsældarvæn, helst þó á Earthling þar sem Bowie daðrar við drum´n bass. Tónlist hans hefur þyngst með árunum og metnaðurinn hefur breyst. Bowie þarf ekki að sanna sig og hann er ekki á höttunum eftir frekari landvinningum; hann gerir einfaldlega tónlist eins og hann vill gera og þóknast hvorki einum né neinum. Áðurnefndar Heathen og Reality sem og afar vel heppnaðar og hreinlega glæsilegar endurútgáfur hans á plötunum The Rise And Fall of Ziggi Stardust And The Spiders From Mars og Aladdin Sane, í tilefni af 30 ára útkomuafmæli þeirra, hefur örvað áhuga manna á David Bowie og tónlist hans. Það er því búin að vera Bowieuppsveifla í gangi undanfarin misseri og ekki er að sjá að karlinum sé farið að fatast flugið, þótt ekki hafi ferill hans allur verið samfelld sigurganga.
Áttundi áratugurinn
Bowie hefur oft verið nefndur Kamelljónið vegna hæfileika síns til að skipta um ham og tileinka sér hinar og þessar tónlistarstefnur, án þess þó að listrænn metnaður glataðist og oftar en ekki hefur honum tekist að vera á undan öðrum og því verið sá sem rutt hefur brautina, ef svo mætti að orði komast. Margir halda því fram að hátindi ferils síns hafi Bowie náð á áttunda áratugnum en þá komu út breiðskífurnar Space Oddity, The Man Who Sold The World, Hunky Dory, Ziggy Stardust, Aladdin Sane, Pin – Ups, Diamond Dogs, Young Americans, Station To Station, Low, Heroes, Lodger, auk tveggja hljómleikaplatna, David Live og Stage, auk fjölda annarra samvinnuverkefna, til dæmis með Iggy Pop. Þarna er að finna ótrúlegan fjölda af frábærum lögum og það eru líklega aðeins Bítlarnir sem geta státað af öðru eins á svo stuttum tíma. Þessi áratugur í lífi hans var tími mikillar tónlistarlegar frjósemi en einnig óhóflegrar eiturlyfjanotkunar. Hvort það geti tengst á einn eða annan hátt skal ósagt látið, en eftir að Bowie fór í meðferð kom langt skeið þar sem sköpunarkrafturinn fór dvínandi. Reyndar viðurkenndi kappinn það seinna að eiturlyfin hafi áfram verið fylgifiskur hans þangað til nýlega eins og verður vikið að á eftir, en í mun minni mæli þó en áður, enda varð hann fyrir miklum áföllum á líkama og sál og geðheilsa hans var ekki alltaf upp á marga fiska. Yfirlýsingar Bowies um meinta tvíkynhneigð sína, daður við nazisma og í raun algjör athyglissýki og allar þær blóðsugur sem fylgja frægðinni í allri sinni mynd hafa eflaust hjálpað til við að nánast þurrausa kappann. Sköpunin og velgengnin á áttunda áratugnum er með hreinum ólíkindum, hlaut ekki að koma að einhverri niðursveiflu, hver svo sem ástæðan eða ástæðurnar væru?
Byrjunin góð - svo niðursveiflan
Níundi áratugurinn hófst þó með glæsilegum hætti hjá Bowie, en í september 1980 kom út platan Scary Monsters (and Supercreeps) og hafi listrænn metnaður hans sem og kraftmikill og tilraunakenndur frumleikinn í bland við nánast fullkomnar melódíur einhverntímann risið upp í hæstu hæðir þá var það á þessum verki. Þetta var síðasta verkið sem Tony Visconti stjórnaði upptökum á, en hann hafði verið samstarfsmaður Bowie meirihluta áttunda áratugarins, en leiðir þeirra skildu, því miður, eftir Scary Monsters og náðu ekki saman aftur fyrr en á nýútkominni Heathen. Bowie fylgdi Scary Monsters ekki sérstaklega eftir, en kaus þess í stað að leika John Merrick í sviðsuppfærslu á Fílamanninum í Chicago og New York og þótti gera því hlutverki góð skil. Bowie var í raun lítið í sviðsljósinu næsta hálfa þriðja árið eftir útkomu Scary Monsters og er talið líklegt, meðal annars, að morðið á John Lennon hafi spilað þar veigamikinn þátt, en þeir voru góðir vinir sem aðstoðuðu af og til hvorn annan í tónlistinni.
Margir samverkandi þættir ullu því að sköpunargáfa Bowie dvínaði, en eiturlyfjanotkunin áðurnefnda er líklega helsta orsökin. Eins og áður var nefnt hætti hann ekki alveg að dópa fyrr en komið var fram á níunda áratuginn og seinna sagði hann í viðtali að drykkja sín hefði aukist mjög mikið eftir að hann hætti við dópið. Nýverið gaf Bowie út þá yfirlýsingu að hann hefði endanlega sagt skilið við áfengi og eiturlyf, léti þó eftir sér einn og einn kaffibolla!
Let´s dance og vinsældirnar
Nile Rodgers stjórnaði upptökum á Let´s dance, sem kom út 14. apríl árið 1983. Hann kom á síðustu stundu í stað áðurnefnds Tony Visconti, sem Bowie setti út í kuldann því hann taldi að Visconti talaði of mikið um son sinn, Joe, (hann hét áður Zowie, en lét breyta nafni sínu snarlega um leið og hann mátti) við fjölmiðla. Hvort þetta hafi verið ástæðan eða ekki telja margir músíkspekúlantar þessi umskipti hafa verið byrjunin á áðurnefndu niðurlægingarskeiði, en að sjálfsögðu, eins og áður var nefnt, í bland við marga samverkandi þætti sem ekki er auðvelt að útskýra á einfaldan hátt. En hvað er þetta niðurlægingarskeið Bowie? Eitt er víst að Let´s Dance er langsöluhæsta plata hans og tónleikaferðin sem farin var í kjölfar hennar, Serious Moonlight, er sú stærsta og vinsælasta sem hann hefur farið í. Þá fóru smáskífur plötunnar á topp vinsældalistanna eða nálægt honum og almennt séð var Bowie orðinn ein allra stærsta stjarnan í tónlistarheiminum og 16. júlí 1983 átti hann tíu plötur á topp eitt hundrað plötulistanum í Bretlandi. Auðvitað var Bowie löngu orðinn stórstjarna þegar hér er komið við sögu, en nú var hann meira í ætt við hefðbundnari stjörnur sem sigla milli skers og báru. En þarna sannast hið fornkveðna, að ekki er allt fengið með frægðinni, sérstaklega þegar innihaldið er mun rýrara en umbúðirnar og þrátt fyrir að Bowie hafi alltaf lagt mikla áherslu á ytra útlit verka sinna var innihaldið alltaf í það minnsta jafnoki þess og oftast mikið meira. Let´s Dance er vissulega ekki ónýt plata og á henni er að finna nokkur mjög góð lög en öll umgjörðin er þess eðlis að nánast er eins og hjá hefðbundinni stórri poppstjörnu, en ekki hjá manni sem þekktur var fyrir hið óvænta, djarfa og frumlega í tónlist, manni sem ruddi brautina fram á við.
Tonight og Never Let Me Down – andleysi og áhugaleysi
Bowie hefur látið hafa eftir sér í viðtölum um þetta mesta vinsældatímabil hans að hann hefði verið fullur af tómleika og fundist að hann hefði ekki verið að gera merkilega hluti þótt vinsældirnar og plötusalan segðu annað; hann var ósáttur við sköpun sína. Segja má að þessi tómleiki og þetta andleysi hans þá, miðað við verk hans á áttunda áratugnum, haldi áfram og marki tvær næstu sólóplötur hans: Tonight, sem kom út árið 1984 og Never Let Me Down, sem kom út þremur árum síðar. Þetta eru almennt talin slökustu verk hans, mörkuð litlum áhuga, sköpunarkrafti og frumleika; aðdáendur hans komust fljótt að því og salan á þessum plötum var ekki svipur hjá sjón miðað við Let´s dance.
Á árunum 1983-1986 vinnur Bowie meðfram að nokkrum frekar veigalitlum verkefnum og líklega óhætt að segja að þessi ár frá því að Let´s Dance kom út og þangað til Never Let Me Down kemur út séu niðurlægingarskeið David Bowie.
Tin Machine
Þó má taka inn í þetta niðurlægingarskeið hljómsveitina Tin Machine sem Bowie setti á stofn ásamt trommuleikaranum Hunt Sales, bróður hans, Tony Sales bassaleikara svo og gítarleikaranum Reeves Gabrels. Sú hljómsveit gaf út þrjár breiðskífur en aðeins ein af þeim, sú fyrsta frá árinu 1989 og samnefnd hljómsveitinni, seldist í yfir milljón eintökum.. Plata númer tvö, Tin Machine II (1991) gekk illa og þriðja platan, sem var tónleikaplata og bar nafnið Tin Machine Live: Oy Vey, Baby (1992), varð alger lágpunktur hvað varðar almennan áhuga á Bowie og tónlist honum tengdum, því hún seldist nánast ekki neitt. Þó er athyglisvert að hlýða á Tin Machine því að sú hljómsveit markar upphaf endaloka niðurlægingarskeiðsins þótt kappinn hafi ekki enn alveg náð áttum og ekki komið sköpunargleðinni í lag fyrr en nokkru síðar. Þarna var þó að finna kraftmikla og groddalega rokktónlist með beittum pólitískum textum og þótt áhugi almennings hafi verið harla lítill þá skein í gegn að Bowie var að komast á lappirnar og ná fótfestu á ný, - og hér var ekki verið að þóknast einum né neinum. Hér verður þó ekki rætt um lögin þeirra í Tin Machine heldur einungis skoðuð sólólög Bowies.
Lok niðurlægingarskeiðsins
Því er stundum haldið fram að niðurlægingarskeiði Bowie ljúki endanlega með plötunni Black Tie White Noise sem út kom árið 1993 og þótt sú skífa sé ekkert í líkingu við hans bestu verk þá hljómar platan nútímalega og er nokkuð heilsteypt, enda maðurinn nýgenginn í hjónaband með hinni gullfallegu sómölsku fyrirsætu, Iman. Það væri hægt að velta sér upp úr því fram og til baka hvaða þættir hafi ráðið mestu um það að David Bowie glataði frumkvæði sínu og ferskleika, hugmyndauðgi sinni og sköpunarkrafti í bland við mikla djörfung og markaðsvitund. En hinu er ekki að neita að hann gerði það. Hvernig svo sem menn skilgreina þetta, hvenær það byrjaði og hvenær því lauk og svo framvegis, þá er það einfaldlega svo að hann gerði ekki bara lélega tónlist á þessu tímabili. Frá honum komu lög á árunum 1983-7 sem fyllt geta einn geisladisk og sýna að jafnvel á niðurbrotaskeiði sínu stendur hann flestum öðrum tónlistarmönnum og hljómsveitum þess tíma fyllilega á sporði og það eru fáir ef nokkrir sem gætu boðið upp á annað eins lagaval á lágpunkti ferils síns eins og David Bowie gerir. Gjöriði svo vel og njótið, David Bowie á niðurlægingarskeiði sínu – það besta frá því versta!
Modern Love (Let´s dance). Geysilega grípandi og kraftmikið popplag með nokkuð sterkum texta um sambandið milli guðs og manns. Náði öðru sætinu á breska vinsældarlistanum en fór hæst í fjórtánda sæti þess bandaríska.
China Girl (Let´s dance). Þetta sömdu Bowie og Iggy Pop saman og frumútgáfuna er að finna á plötu Iggy Pop, “The Idiot album” frá árinu 1977. Þessi útgáfa er allt öðru vísi og lagið er grípandi, þótt texti lagsins sé í raun frekar dimmur og forvitnilegur:
I wander into town/Just like some sacred cow/visions of swastikas in my head/Plans for everyone/It´s in the white of my eyes. Lagið náði öðru sætinu í Bretlandi og því tíunda í Bandaríkjunum.
Let´s dance (Let´s dance). Topplag plötunnar, fór á toppinn bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum og varð gríðarlega vinsælt um allan heim og söluhæsta smáskífa kappans fyrr og síðar. Einfalt, skothelt og dansvænt.
Cat People (Putting out fire) (Let´s dance). Lagið samdi Bowie með Giorgio Moroder fyrir kvikmyndina “Cat People” þar sem Malcolm McDowell og Nastassja Kinski fóru með aðalhlutverkin. Útgáfan sem er að finna á Let´s dance er ólík þeirri upprunalegu, sem náði 26.sætinu á breska vinsældarlistanum, því að búið er að klippa út þátt Moroders í undirspilinu og bæta við öðru, og er það síst til bóta. En lagið er gott og rödd Bowies hljómar einkar flott.
Criminal World (Let´s dance). Lag upphaflega flutt af The Metros. Virkilega flott útgáfa – frábær bassalína – eitt af þeim betri á plötunni.
Dancing in the street. Upphaflega flutt af Martha Reeves and The Vandellas. Gefið út í tengslum við Live-Aid tónleikana sem haldnir voru á sama tíma, sumarið 1985, í London og Philadelphiu. Það hefði gjarnan mátt velja betra lag en þó var það þess virði að heyra í David Bowie og Mick Jagger saman. Lagið fór beint á toppinn í Bretlandi.
Loving the Alien (Tonight). Virkilega gott lag þar sem kjarkur og þor fara saman og þá er myndbandið ansi hreint skemmtilegt og hálf klikkað. Lagið náði 19. sætinu í Bretlandi en hefði átt miklu meira skilið.
Tonight (Tonight). Annað lag eftir Bowie og Iggy Pop, upphaflega frá árinu 1977, en hér er það Tina Turner sem aðstoðar Bowie en frekar lítið fer þó fyrir kraftmikilli rödd hennar. Lagið er grípandi og í ágætum Reaggie-stíl en náði engum vinsældum, sem kom mönnum á óvart á þessum tíma.
Blue Jean (Tonight). Grípandi og langkraftmesta lag plötunnar og minnir að nokkru leyti á Ziggy-tímabilið. Náði 6. sætinu á vinsældalistanum í Bretlandi.
This is not America. Úr kvikmyndinni The Falcon And The Snowman frá 1984 þar sem Sean Penn og Timothy Hutton fóru með aðalhlutverkin. Gítarleikarinn Pat Metheny og hljómsveit hans sáu um undirleikinn og lagið er lagleg melódía með döprum undirtón sem speglar afdrif aðalpersóna kvikmyndarinnar ágætlega. Náði 14. sætinu í Bretlandi snemma árs 1985 og varð ein söluhæsta smáskífa Bowies í Þýskalandi. Var aukalag á Tonight þegar sú skífa var enduútgefinn árið 1995.
Absolute Beginners (Er að finna á sömu endurútgáfu og This is not America.) Úr samnefndri kvikmynd eftir Julien Temple frá árinu 1986. Hér er Bowie mættur í fínu formi og með hreint frábært lag enda rétt missti það að fyrsta sætinu í Bretlandi. Saxafónsleikurinn í laginu er sérstaklega flottur, gerist varla betri, algjör lungnasprengja, en um hann sá Don Weller.
When The Wind Blows (Aukalag á endurútgáfunni á Never Let Me Down frá 1995). Samið fyrir samnefnda teiknimynd Raymonds Briggs frá árinu 1986. Þetta er gott dæmi um það áhugaleysi sem var á tónlist Bowies á þessum tíma því lagið komst einungis í 44. sætið á breska vinsældalistanum þrátt fyrir að vera eitt hans besta lag í langan tíma.
Time will crawl (Never Let Me Down). Besta lag þessarar plötu, grípandi popp og þá er textinn skemmtilegur en lagið náði ekki nema 33. sætinu í Bretlandi.
Glass Spider (Never Let Me Down). Leiftur frá áttunda áratugnum og freudískur texti um samband móður og barns; glæður hjá kappanum.
Texti: Svanur Már Snorrason
(Grein þessi birtist talsvert stytt í Lesbók Morgunblaðsins þann 30. júlí árið 2005. Hér er greinin óstytt)
fimmtudagur, 11. nóvember 2010
föstudagur, 5. nóvember 2010
Club Tropicana
Langar að blogga en get það ekki, en auðvitað get ég það líkt og skúffuskáldið getur gefið út skáldsögu eða smásagnasafn eða ljóðabók. En samt er eitthvað sem stoppar mig en það er ekki Þórður Kakali - hann tel ég mestan stjórnanda eða leiðtoga sem við Íslendingar höfum átt, og enginn nema Jón Gnarr sem gæti átt möguleika í hann. Hins vegar vildi Jón komast til valda en Þórður ekki, en það þarf ekki að segja allt. Best er auðvitað að fá til valda fólk sem raunverulega vill ekki komast til valda, samanber Þórð. En Jón Gnarr vildi komast til valda og lái ég honum það ekki - ástandið var að mörgu leyti verra en á Sturlungaöld - um það sá Sjálfstæðisflokkurinn með dyggri aðstoð Framsóknarflokksins. Hryllingur. En framundan eru betri tímar með Jón Gnarr. Svo kemur eitthvað svipað afl og Besti flokkurinn í kosningunum þegar Jóhanna fer frá völdum. Það er pottþétt.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)