fimmtudagur, 4. mars 2010
Séð og Heyrt Móment 16
LEIFTUR FRÁ LIÐINNI TÍÐ
Minningar kalla á hughrif.
Ég er í Flensborg með Jóni bróður og horfi á Þorvar söngvara Jonee Jonee, íklæddan svörtum plastpoka og með blátt eða grænt hár, syngja um ýmislegt sem hann gerði af því að pabbi hans vildi það. Held ég sé um tíu ára.
Um sama leyti er ég sár og svekktur út í Jón bróður fyrir að hafa virt afmælisósk mín að vettugi og gefið mér plötu með David Bowie en ekki Queen. En ekki lengi.
Ég er blindfullur í Hellisgerði með vini mínum og er að lokum bókstaflega borinn heim af landsfrægum kvikmyndatökumanni; ég er fjórtán.
Tuttugu og sex ára er ég staddur á bensínstöð, íklæddur frekar óþægilegum fötum með grútskítuga hanska á höndum, og hugsa með mér hvurn andskotann ég sé að gera við líf mitt. Hef þó gert ýmislegt vitlausara.
Hef stöðugt leitað að manískum andartökum og huglægri ró á sömu stundu til að fylla upp í minningarbókina Bekkurinn minn sem nú heitir Lífið og ég.
Segi börnunum mínum fáránlegar sögur á kvöldin þar sem allt getur gerst og ýmsir koma við sögu; skrímsli, úlfar, ofurhetjurnar Elísa Rún og Valur Áki, Bob Dylan, Valli afi og Dóra amma og svo auðvitað Mr. Bojangles.
Ég kem úr kafi; fanga andartakið um leið og ég vernda mig fyrir kuldanum með handklæði úr IKEA og klæði mig í hversdagsleikann sem fer mér svo fjandi vel.
Í matinn kjötbollur í brúnni með skrýtnum hugsunum og grænum baunum.
(Séð og Heyrt, 8. tbl. 2010)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli