SAGA ÚR SAMBANDI! „Þú ert ekki neitt ef þú hugsar bara um sjálfan þig.“
Honum rann kalt vatn milli skinns og hörunds við þessi orð. Hún vissi hvernig best væri að komast að honum – hafði á honum tak, en nýtti það sjaldan. Það fannst honum best.
„Ég veit, ég veit,“ sagði hann um leið og hann reimaði á sig skóna. Var á leið út í sjoppu að kaupa sígarettur, Camel, filterslausar.
„Er til gos?,“ spurði hún en beið ekki eftir svari: „Kauptu líka nóakropp, lakkrísrör, og bland í poka – hlaup og salt, ekki brjóstsykur.“
„Eitthvað fleira sem frúin vill?“ spurði hann og hæðnistónninn leyndi sér ekki í röddinni.
„Heilsu, hamingju og nýtt líf,“ svaraði hún að bragði, beiskjan og grimmdin ekki langt undan.
„Get ekki boðið svo vel,“ hreytti hann út úr sér og til að bæta á þunga andrúmsloftsins kveikti hann sér í síðustu sígarettunni og gekk þungum skrefum inn í stofuna á skítugum strigaskónum og spurði: „Ertu með pening?“
Það fauk í hana, hann vissi hvernig ætti að pirra hana; hún reyndi að láta það ekki sjást, lítið fyrir að bera tilfinningar sínar á torg og enn minna fyrir að láta koma sér úr jafnvægi. Lét nægja að horfa á hann með ísköldu augnaráði og sagði: „Nei, þú eyddir öllu sem ég átti í hóruna þarna í vinnunni, eða varstu búinn að gleyma því?“
Svellkaldur blés hann reyknum í átt að henni og nuddaði skítugum skónum í teppið og svaraði: „Nei, en þú veist að þú ert ekki neitt ef þú hugsar bara um sjálfa þig.“
Séð og Heyrt (38. tbl. - 2009)