þriðjudagur, 15. nóvember 2016

Gatan

Það er kvöld og ég hleyp hratt niður bláa götuna og finn á mér að langt er síðan ég hef borðað morgunverð.

Hraði huga míns er í takt við hraða hlaupsins og gerir nákvæmlega ekkert fyrir mig nema að efla allar þær efasemdir sem skriðið hafa um í höfði mínu eins og eiturslöngur og rennvotar rottur undanfarna mánuði; undanfarin ár og áratugi.

En ekki lengur en það.

Það er ekki gaman að hlaupa nema hratt og í stuttan tíma.

Bláa gatan fannst mér hins vegar þetta kvöld vera eins og hlaupavöllur ætlaður mér eingöngu.

Þess vegna hljóp ég hratt niður bláu götuna og vonaði innilega að ég yrði ekki lengi á leiðinni og fyndi fljótt aðra götu í öðrum lit.