laugardagur, 2. maí 2015

„Á meðan aðrir voru í sleik var ég að handmjólka kýr“

Hafnfirski rithöfundurinn Bryndís Björgvinsdóttir hefur slegið í gegn með bókum sínum.


Bryndís ólst upp í Hafnarfirði og segir bæinn vera sér afar hugleikinn, svo mikið að sumum finnist nóg um. Bók hennar, Hafnafirðingabrandarinn, kom út fyrir síðustu jól og hlaut Bryndís Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir hana sem og Fjöruverðlaunin. Gaflari settist niður með Bryndísi og ræddi við hana um eitt og annað.

Segðu okkur aðeins frá uppvexti þínum.

„Ég ólst upp á Vesturvangi í norðurbæ Hafnarfjarðar, og er yngst sex systkina. Og mamma og pabbi búa þar enn, sem mér finnst alveg frábært. Ég var síðan send í sveit að Næfurholti við Heklu í fimm sumur, frá tíu ára aldri, sem gerði það að verkum að á meðan aðrir voru í unglingavinnunni eða í sleik var ég að handmjólka kýr eða strokka smjör. Ég var í Engidalsskóla og síðan í Víðistaðaskóla. Mér fannst mjög gaman í Víðistaðaskóla þrátt fyrir að ég hafi nú verið talsverður „lúði“, eins og það er oft orðað; en ætli mér hafi ekki bara fundist svona spennandi að fá að hanga með öðrum unglingum eftir sumrin með beljunum í sveitinni – þótt mér þyki nú vænt um þær líka.“



Þú varst kornung eða aðeins fimmtán ára gömul þegar fyrsta bókin leit dagsins ljós – Orðabelgur Ormars ofurmennis – sem þú skrifaðir ásamt Auði Magndísi. Voru skrifin alltaf eitthvað sem þú hafðir í þér og vissir að einhverju leyti að þú myndir leggja fyrir þig?

„Ég hugsaði aldrei lengra en svo, að mér þætti gaman að lesa og skrifa texta – sérstaklega ef hann var fyndinn. Mér fannst reyndar líka mjög gaman í sögu, líffræði, myndmennt og var þá einnig í leikfélögum. Ég held að það sé hálfgerð tilviljun að ég hafi ratað inn á þessa braut frekar en ýmsar aðrar.“

Tvær af bókunum þínum hafa verið verðlaunaðar – Hafnfirðingabrandarinn og svo bókin Flugan sem stöðvaði stríðið, sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2011. Er það ekki hvetjandi og jákvætt, eða finnurðu fyrir pressu frá lesendum og útgefendum vegna verðlaunanna sem bækur þínar hafa hlotið?

„Það er mjög skemmtilegt og gleðilegt að hafa fengið þessi verðlaun. Ég finn samt lítið fyrir pressu. Það eru svo margir sem hafa fengið verðlaun fyrir allskonar og síðan hefur ekkert til þeirra spurst. Til dæmis fékk ég einu sinni verðlaun fyrir hestaíþróttir en í dag fer ég helst ekki nálægt hestum – ekki einu sinni í Húsdýragarðinum. Mér finnst skemmtilegast að fólk hafi gaman af þessum bókum og hlakka til að takast á við önnur verkefni sem sum verða kannski sambærileg en önnur ólík.“



Hvað með viðtökur almennt gagnvart Hafnfirðingabrandaranum – eru þær öðruvísi hjá Hafnfirðingum en öllum hinum?

„Gunnar Helgason leikari, sem býr einmitt í Hafnarfirði, sagði á barnabókaráðstefnu um daginn að Hafnfirðingabrandarinn ætti að vera skyldulesning í Hafnarfirði. Ég verð að viðurkenna að Hafnfirðingarnir í kringum mig taka kannski dýpst í árinni – aðrir hafa verið aðeins rólegri. Síðan eru margir sem muna aðeins eftir afa mínum eða frænda mínum sem sagan er innblásin af og finnst þess vegna bókin vera áhugaverð. Eins og Ingvar Viktorsson. Hann vill að ég komi og segi frá bókinni á Lionsfundi. Ég held að enginn annar Lionsklúbbur en einmitt þessi í Hafnarfirði myndi vilja hitta mig. Á móti kemur var ég að reyna að selja bókina í Jólaþorpinu í Hafnarfirði síðustu jól og mér fannst svolítið margir verða fyrir vonbrigðum þegar ég útskýrði fyrir þeim að hér væri ekki brandarablað með Hafnarfjarðarbröndurum á ferðinni heldur skáldsaga – en titillinn er auðvitað svolítið villandi. Ég fékk aðeins á tilfinninguna að fólk væri spenntari fyrir fjögurhundruð blaðsíðna brandarablaði en skáldsögu sem gerist í Hafnarfirði. En svo voru auðvitað nokkrir þarna inn á milli sem voru áhugasamari og keyptu bókina.“

Ertu byrjuð að vinna að næstu bók eða bókum?

„Ég er svona að leggja línurnar þessa dagana, en veit ekki hvað verður úr.“
Bryndís nam sagn- og þjóðfræði við Háskóla Íslands og the University of California, Berkeley, og lauk BA-prófi í sagnfræði árið 2006 og MA-námi í þjóðfræði þremur árum síðar. Hvernig skyldi henni ganga að samræma ritstörf og aðra vinnu?

„Það gengur alveg þokkalega. Ég er í vinnu við Listaháskóla Íslands og þar ríkir sem betur fer mikill skilningur á að starfsmenn séu einnig að sinna eigin listsköpun meðfram vinnu.“



Að lokum – er Hafnarfjörður þér hugleikinn? Hvað er gott við Hafnarfjörð og við það að vera Hafnfirðingur?

„Hafnarfjörður er mér það hugleikinn að fólk í kringum mig er nánast búið að fá nóg. Ég má ekki stíga upp í bíl og þá er ég óvart farin að keyra til Hafnarfjarðar – en ég er búsett núna í Reykjavík. Ef einhver í vinnunni spyr á hvaða veitingastað hann á að fara á, eða gera um helgina, er eins og ég verði andsetin og mæli ég þá bara með stöðum í Hafnarfirði – með Tilverunni eða heimsókn í Hellisgerði, Súfistann eða Pallett kaffikompaní. Um daginn sagði ítalskur arkitekt sem vinnur með mér að Hafnarfjörður væri fallegasti bærinn á landinu. En það þarf auðvitað ekkert að segja mér neitt um það. Það var mjög gott að alast upp í Hafnarfirði og mér fannst vel stutt við bæði íþróttir og listir þegar ég var unglingur – en á tíunda áratugnum komu mörg bílskúrsbönd frá bænum og félagsmiðstöðvar og leikfélög voru virk. Ég veit ekki hvernig það er í dag, en þegar rétt er haldið á spöðunum þykir mér ljóst að Hafnarfjörður hefur svo margt til brunns að bera.“

Texti: Svanur Már Snorrason.
Myndir: Úr einkasafni.

Birtist í Gaflara í apríl 2015