fimmtudagur, 23. apríl 2015

laugardagur, 4. apríl 2015

Útilokar ekki endurkomu í stjórnmálin

Fyrrum bæjarstjóri okkar Hafnfirðinga, Guðmundur Árni Stefánsson, er kominn heim eftir níu ára dvöl í útlöndum sem sendiherra. Hann segir stjórnmálin eins og góðkynja vírus sem þú losnir aldrei við, og útilokar ekki að snúa aftur á þann vettvang. Gaflari hitti Guðmund Árna og lagði fyrir hann nokkrar spurningar.


Ertu alkominn heim og kom aldrei annað til greina en að flytja aftur í Hafnarfjörð?


Já, ég er kominn heim í hýra Hafnarfjörðinn eftir níu ára útiveru. Það er góð tilfinning, en vissulega tekur tíma að aðlagast á nýjan leik, þótt ég hafi auðvitað fylgst vel með gangi máli og verið í góðu og þéttu sambandi við fólkið mitt og vini á Íslandi í gegnum árin. Ég starfa nú sem svokallaður heimasendiherra í utanríkisráðuneytinu og er með ýmis mál á mínum borðum, svo sem málefni Eystrasaltsráðsins, sem er vettvangur  ellefu ríkja í norðanverðri Evrópu. Það kom auðvitað aldrei annað til greina en að flytja aftur í Hafnarfjörðinn, enda hef ég átt íbúð á Völlunum öll árin mín í útlöndum, sem börnin mín hafa nýtt og við hjónin, þegar við höfum skotist heim í frí. Alkominn heim? Það veit enginn ævina sína fyrr en öll er. Er ekki hver vegur að heiman vegurinn heim?


Ef þú lítur til baka og metur dvöl þína erlendis sem sendiherra – hvað stendur hæst upp úr og var þetta ekki töluvert öðruvísi en að starfa sem stjórnmálamaður?


Þetta voru skemmtileg og lærdómsrík ár. Ég var í tæp sex ár sendiherra í Svíþjóð og síðan önnur rúm þrjú í Bandaríkjunum. Gott og gefandi á báðum stöðum. Auk þess hafði ég mörg önnur lönd undir mínu umdæmi, svo sem Sýrland, Albaníu og Kýpur út frá Stokkhólmi, og lönd á borð við Mexíkó, Argentínu, Chile og Brasilíu á árum mínum í Washington. Það er ýmislegt líkt með störfum sendiherra og stjórnmálamanns.  Mikil og náin samskipti við fólk, og þú þarft að sýna frumkvæði í störfum þínum og vera með marga bolta á lofti samtímis. Ég hef stundum líkt störfum sendiherra í annasömu sendiráði við starf bæjarstjóra; verkefnin eru afar ólík að gerð og stærð, og að morgni vinnudags veistu ekki hvað kemur uppá yfir daginn umfram það sem á dagskránni er. Og þér er ekkert óviðkomandi þegar kemur að hagsmunum Íslands sem sendiherra eða viðkomandi bæjarfélags, þegar þú ert bæjarstjóri. En auðvitað er er sendiherra embættismaður og fylgi stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem situr hverju sinni. Það hafa setið fimm ríkisstjórnir  og sex utanríkisráðherrar, þessi ár mín sem sendiherra og ég hef ekki átt í neinum vanda með að vinna eftir stefnu þeirra allra. En það er gefandi og þakklátt að fá tækifæri til að vera andlit þjóðarinnar úti í heimi og vinna að hagsmunum hennar. Ísland er gott vörumerki og fólk erlendis forvitið og jákvætt í garð okkar, og ég hef verið svo gæfusamur að eignast fjölmarga nýja vini,  bæði Íslendinga erlendis og fólk frá fjölmörgum þjóðlöndum. Ég hef stundum sagt að hinn mikli fjöldi Íslendinga sem býr og starfar erlendis, séu ekki síður sendiherrar þjóðar sinnar, en við hinir formlegu sendiherrar.


Hvað er á döfinni hjá þér í nánustu framtíð? Gætirðu hugsað þér að snúa aftur í stjórnmálin – hefur verið pressað á þig að gera það?


Í rúm tuttugu ár voru stjórnmálin mitt aðalstarf – fyrst afar ánægjuleg ár sem bæjarfulltrúi og bæjarstjóri og síðan sem ráðherra um skeið, og svo þingmaður um árabil. Stærstan hluta þingmannsáranna var ég í stjórnarandstöðu og það reynir á, því það er erfitt að koma hugðarefnum og stefnumálum áfram verandi í stjórnarandstöðu. En allt var þetta indælt stríð. Þetta var ágætur skammtur þessi langi tími í pólitíkinni. Hins vegar neita ég því ekki að pólitíkin stendur ávallt nálægt hjarta mínu. Og ég fylgist náið með gangi mála í bæjarpólitíkinni í Hafnarfirðinum og ekki síður gangi landsmálanna. Ég hef stundum sagt að stjórnmálaáhugi og stjórnmálaþátttaka sé eins og góðkynja vírus sem þú berð með þér alla ævi. Hann getur legið í láginni um stund og svo blossar hann upp án þess að neitt verði við ráðið. Þessi vírus blossar upp hjá mér annað slagið. Ég hef hins vegar engin plön um að fara á fullt í pólitíkina aftur alveg á næstunni, enda þótt ýmsir hafi nefnt þann möguleika við mig – í gríni og alvöru. En maður skyldi aldrei segja aldrei.


Að lokum – hvernig líst þér á stöðu bæjarmála og landsmála?


Þegar stórt er spurt, þá verður fátt um svör. Margt er á réttri leið á báðum vígstöðvum, öðru miðar hægar og sumt er ekki nógu gott. Ég verð í raun og veru að segja pass við þessari spurningu að öðru leyti – enda er ég bara grámyglulegur embættismaður í utanríkisráðuneytinu. Hins vegar vil ég undirstrika að stjórnmálamenn – hvar í flokki sem þeir standa – eru allir að gera sitt besta. En stjórnmál eru ekki fyrir fáa útvalda – þau eru hreyfiafl hlutanna; það eru allir beint og óbeint þolendur og gerendur vegna ákvarðanna sem teknar eru á hinum pólitíska vettvangi. Og þess vegna hvet ég alla, ekki síst yngri kynslóðina, að láta til sín taka á þeim vettvangi. Það er áhyggjuefni, þegar stjórnmálin eru töluð niður. Vitaskuld eiga stjórnmálamenn að hafa öflugt aðhald og þola gagnrýni og skoðanaskipti, en við eigum ekki að gefa út skotveiðileyfi á fólk bara vegna þess að það er kjörið til pólitískra starfa. Því viðhorfi þarf að breyta í íslensku samfélagi. Þingmenn og bæjarfulltrúar voru kjörnir af fólkinu og eru í raun þverskurður samfélagsins. Hvorki betri né verri en við öll hin.

Texti: Svanur Már Snorrason
Myndir: Úr einkasafni
Gaflari, mars 2015