föstudagur, 16. ágúst 2013

Ljóð í ljótum búning

05.00.65 – Gagnrýni og ritdómar
Kennarar: Ástráður Eysteinsson og Auður Aðalsteinsdóttir


Dálítil greinargerð

Það er dálítið skrýtið með þetta val mitt á þessari ljóðabók, Ljósar hendur, sem Fjölvaútgáfan gaf út árið 1997. Hún vakti athygli mína fyrir það hversu óhemjuljót í útliti mér finnst hún vera. Æpti á mig, taktu mig, taktu mig! Tók hana, las hana og sá ekki eftir því. Er ekki líka einhversstaðar skrifað að útlitið sé ekki allt og einnig að ekki skuli bók dæmd eftir kápunni? En hins vegar er það nú líklegt að ljótt útlit bókar fæli frá frekar en hitt – að ég sé frekar undantekning, að fæstum finnist ljótleikinn að einhverju leyti forvitnilegur. En svo eru skoðanir varðandi útlit mismunandi og eflaust finnast þeir sem finnst útlit þessarar litlu ljóðabókar vera fallegt - þetta er svo persónubundið.

Ég held að útlit bókar geti skipt miklu máli varðandi sölu hennar.

Þessi ljóðabók, Ljósar hendur, er sýnisbók á ljóðum þriggja skálda og hafði ég aðeins heyrt um eitt þeirra og lesið eitthvað eftir, Vilborgu Dagbjartsdóttur. Um hinar tvær hafði ég ekkert heyrt og ekkert eftir þær lesið. Þær heita Ágústína Jónsdóttir og Þóra Jónsdóttir. Það var gaman að uppgötva þessar tvær, og þá sérstaklega Þóru. Það mætti alveg heyrast meira í henni, en kannski hlusta ég ekki nógu vel?

Ljósar hendur

Ljósar hendur er titill á ljóðabók skáldanna Ágústínu Jónsdóttir, Vilborgar Dagbjartsdóttur og Þóru Jónsdóttur. Segja má að þetta sé tilfinninganæmt og trúarlegt heiti á innihaldsríkri bók sem kemur í smáu broti, er ríkulega myndskreytt. Aftan á bókarkápu stendur að hún hafi verið sett saman af því tilefni “hvað sumarið var indælt með sólskini, yl og gróanda”og því má segja að það stafi ljómi af heiti hennar.

Það var Þorsteinn Thorarensen sem valdi skáldkonurnar í bókina en sjálfar völdu þær hver sín ljóð.

Vilborg Dagbjartsdóttir

Valið á ljóðum Vilborgar Dagbjartsdóttur í þessa bók einkennist öðru fremur af mjög svo myndríkri og viðkvæmri náttúruskynjun. Í ljóðum hennar gætir ríkrar viðleitni til að treysta samband mannsins við umhverfi sitt og uppruna og vökva rætur þess. Vilborg er þjóðlegt og móðurlegt skáld og hinar ýmsu myndir náttúru, lands, sögu og trúar eru henni hugleiknar. Hlýju stafar frá ljóðum Vilborgar og hún höfðar nokkuð oft til barnsins sem býr í lesandanum og kveikir með honum hugrenningar um staði og stund, vekur í brjósti hans kenndir og tilfinningar sem mega helst ekki gleymast. Í Maríuljóði sínu blandar Vilborg saman bernskuminningunni á áhrifaríkan hátt, við móðurlega hlýju og trúarlegt myndmál:

Nú breiðir María ullina sína hvítu/á himininn stóra./María sem á svo mjúkan vönd/að birta með englabörnin smáu.

Fuglinn sem á hreiður við lækinn/í hlíðinni sunnan við bæinn/er kallaður eftir henni./Það er Maríuerla.

Í ljóðum Vilborgar blandast bernskan oft saman við djúpa lífsreynslu. Einn styrkleiki Vilborgar, af mörgum, í ljóðagerð hennar, snýr að ræktunarsemi mannskepnunnar við sig sjálfan, náttúruna, land og sögu. Með því að skynja og skilja hið liðna og setja það í nýtt samhengi, hlúir maðurinn að rótum sínum og er mun betur í stakk búinn að skilja heiminn í kringum sig og sitt eigið líf.

Þóra Jónsdóttir

Þá er komið að henni Þóru Jónsdóttir og fannst mér hennar kafli í bókinni hvað athyglisverðastur og ánægjulegastur. Hennar áhrifaríkustu einkenni í ljóðum þessarar bókar má finna í náttúrumyndum hennar sem oft eru dregnar upp á mörkum árstíða og ástríðna, á mörkum dags og nætur eða á mörkum hins ókomna og hins liðna. Þóru náttúrumyndir höfða afar sterkt til tilfinninga lesandans og líklega er það vegna þess hversu þær eru dregnar einföldum og skýrum dráttum - en spegla um leið dulvitund mannskepnunnar - þrár hennar og óskir, ástríður og langanir. Ágætis dæmi um það er ljóðið um strokuhestinn brúna:

Söðlaðu mér strokuhestinn brúna

Þann sem gengur einn á heiðinni/og hneggjar

með styggð í faxi/firrð í augum/og allan gang í hófum.

Í bók þessari búa flest ljóð Þóru Jónsdóttur yfir seiðmögnuðum og skemmtilegum áhrifum. Þau virðast einföld og láta ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn með auknum lestri þeirra kemur smám saman í ljós margræðni þeirra og dulúð.

Ágústína Jónsdóttir

Ég skynjaði í ljóðum Ágústínu Jónsdóttur sterka trúarlega og erótíska/kynferðislega samlifun með því öllu sem býr í heimi mannskepnunnar og móður hennar, náttúrunni. Ljóðmælandinn endurspeglar mynd sína og tilfinningar og hvatir í því öllu sem nokkurn lífsanda dregur. Víða blandar Ágústína saman í ljóðum sínum útlínum manns og náttúru og sýnir með því að allt þetta líf er af sömu rótinni runnið. Hvatalíf mannsins og frjósemi náttúrunnar myndar samfellda heild og springur út í tilfinninganæmri og stundum lostafullri upplifun. Hún yrkir um goshverinn með eftirfarandi hætti:

Bandingi/haldinn óþoli/ástríðufull kvika/rís hnígur rís

frumkraftur

Þyrstur í frelsi/lostafull togstreita/uns allar hömlur bresta/ólgulindin brýst fram/inn í þráðan heim

Þetta erótíska/kynferðislega myndar baksvið flest allra ljóða Ágústínu sem hún skynjar oft í hillingum eða draumum. Hennar ljóðmál býr fyrst og fremst yfir táknrænum áhrifamætti, því styrkur þess liggur ekki endilega í efnislegri tilvísun heldur í því sem kalla mætti, sefjunarmátt ljóðmálsins. Sem dæmi um það beitir hún trúarlegum og goðsögulegum táknum og blandar oft saman með áhrifaríkum hætti háspekilegri sinni lífssýn og erótískri upplifun. Ljóðform Ágústínu sem og tungutak er hreint og tært.


Dálítið niðurlag

Ljósar hendur er mjög vel valin sýnisbók á ljóðum þessara þriggja athyglisverðu ljóðskálda. Innihaldið, orðin, ljóðin, eru góð en það sama verður ekki sagt um útlitið. Það er hræðilegt. Algjörlega ofskreytt og það er á mörkunum að ljóðin hreinlega týnist innan um allt skrautið sem er afar ósmekklegt og er þá frekar vægt til orða tekið. Útlitið dró mig þó að bókinni en því miður held ég að það hafi ekki margið aðrir dregist að því. Það er synd því ljóðin eru góð.


Svanur Már Snorrason

mánudagur, 12. ágúst 2013

hugskeyti

sendi þér hugskeyti flugskeyti
tösku flösku
komdu í faðminn á mér
og spilum á banjó það sem eftir lifir nætur

föstudagur, 2. ágúst 2013

ALMÆTTIÐ OG FRESSKÖTTURINN 2 eftir (HEYRN)

Ljóðasafnið er frá árinu 1986. Njótið vinir mínir.