miðvikudagur, 21. desember 2011

fimmtudagur, 15. desember 2011

mánudagur, 5. desember 2011

"Ég vona að þú breytist."


Sunna Dögg Scheving (20) er sár út í pabba sinn, Magnús Scheving (43):

PABBI, ÉG ER EKKI SÁTT VIÐ ÞIG!

Söknuður!

Sunna Dögg Scheving, dóttir Latabæjarkóngsins Magnúsar Scheving, er ekki sátt við pabba sinn. Hún segir hann lítið sem ekkert hafa sinnt sér. Hún hafi upplifað mikla höfnun því henni finnist eins og pabbi sinn líti á hana sem leyndarmál sem enginn megi vita af. Sunna segir Séð og Heyrt sögu sína.

Faðerni! „Ég viðurkenni að ég er ekki sátt við pabba minn. Og ég hef upplifað ýmislegt í gegnum árin og er tilbúin að segja öllum sannleikann,“ segir Sunna sem er verulega heyrnarskert.

„Ég fæddist með eðlilega heyrn en fékk heilabólgu aðeins fimmtán mánaða gömul og við það missti ég nánast alla heyrn.“

Sunna varð fyrir misnotkun í skóla í æsku og það hefur sett sitt mark á hana, eins og gefur að skilja, og hún hefur dvalið á meðferðarheimilum. Sunna flutti til Íslands í maí eftir þriggja ára dvöl í Svíþjóð.

„Ég bjó á meðferðarheimilinu Finspång frá maí 2005, var þar í tvö ár. Þá flúði ég úr meðferðinni, því líðan mín þar var slæm, og hélt til hjá vinkonu minni í Gautaborg. Ég varð ástfangin af strák sem heitir Ervin Dautovski og við byrjuðum að vera saman í ársbyrjun 2008. Síðan varð ég ófrísk og á að eiga um áramótin. Samband okkar Ervins entist hins vegar ekki, því miður.“

Viðbrögð pabba slæm

Í kjölfar þeirra tíðinda að Sunna væri ófrísk, vildi mamma hennar, Halldóra Blöndal, að hún flytti heim til Íslands.

„Hún vill vera til staðar fyrir mig, hefur alltaf viljað það, og hún tók tíðindunum vel,“ segir Sunna. Hún mætti ekki eins hlýju viðmóti þegar hún hringdi heim til pabba síns og sagði tíðindin. „Þegar ég hringdi heim til pabba svaraði Ragnheiður, eiginkona hans. Ég bað hana að láta pabba vita að hann væri að verða afi.“

Viðbrögð Magnúsar voru hins vegar ekki þau sem Sunna bjóst við.

„Pabbi hringdi til mömmu kvöldið eftir og hann var brjálaður út í hana og ásakaði mig fyrir að hafa hringt heim til sín. Mér var sagt að ég hefði ekki leyfi til að hringja í hann lengur. Þannig tók nú pabbi minn þeim tíðindum að hann væri að verða afi.“

Sunna Dögg segir að þegar hún hafi verið yngri hafi hún hafi ekki mátt hitta börn Magnúsar og Ragnheiðar, Sylvíu og Kristófer – systkini sín.

„Ég fékk aldrei leyfi til að hitta systkini mín, börnin hans Magnúsar. Eitt sinn hitti ég þau út í búð en þá sagði Ragnheiður við börnin sín að ég væri bara frænka þeirra, en ekki mjög mikið skyld þeim. Ég var mjög sár yfir þessari lygi sem ég hef í raun þurft að búa við síðan ég var ung,“ segir Sunna og bætir við að ástandið í dag sé óbreytt.

„Ég fékk aldrei tækifæri til að kynnast þeim og veit ekki hvernig þau líta út í dag.“

Sunna segir unglingsárin hafa verið sér sérlega erfið.

„Ég fékk oft reiðiköst vegna pabba og mamma þurfti að þrauka með mér í gegnum þetta tímabil, hún barðist mér við hlið, gerði allt sem í hennar valdi stóð. Hún hjálpaði mér með því að senda mig í meðferð, oftar en einu sinni. En engin þeirra hjálpaði.
Á meðan á þessu erfiðu unglingsárum stóð, sendi pabbi mér bara jóla- og afmælisgjafir - óskaði mér til hamingju með afmælið en gaf mér aldrei tækifæri til þess að kynnast börnunum sínum.“

Óvelkomin í fjölskyldu pabba

Sunna upplifði höfnun og skömm, fannst hún vera óvelkomin, leyndarmál sem ekki mætti segja frá.

„Þegar ég fékk gjafir frá pabba, fannst mér eins og ég væri leyndarmál, sem hann vildi ekki að neinn vissi af. Fékk það á tilfinninguna að með gjöfunum vonaðist hann til að ég myndi þegja og ekki segja frá hvernig hann kemur fram við mig. Ég hef aldrei fengið neina skýringu á því hvers vegna þetta var svona og er svona enn.“

Sunna segir álagið á mömmu sinni hafa verið gríðarlega mikið í gegnum tíðina.

„Mamma var mjög þreytt og nánast buguð að þurfa að glíma alein við þessi vandamál, á meðan pabbi minn gerði svo til ekkert. En líðan mín í dag er mjög góð eftir alla hjálpina frá mömmu og ég fæ henni seint fullþakkað,“ segir Sunna sem býr nú hjá mömmu sinni.

„Hún styður mig að öllu leyti, hefur gert það á meðgöngunni og ætlar að styðja mig með fæðinguna og eftir hana. Mamma hlakkar til að verða amma. Hins vegar er leiðinlegt og sárt að pabbi skuli hundsa mig. Satt að segja þá hitti ég hann aðeins einu sinni eða tvisvar á ári,“ segir Sunna Dögg sem langar að kynnast pabba sínum.

„Ósk mín hefur alltaf verið sú að fá að kynnast pabba mínum miklu betur, að ég verði boðin velkomin í fjölskylduna hans, en ég hef ekki verið velkomin þar.“

Spurningunum sem Sunna spyr er ekki auðvelt að svara.

„Hvers vegna getur pabbi ekki viðurkennt að ég er dóttir hans? Er hann að forðast eitthvað? Hann á að vera stoltur af mér!“

Sunna segist hafa reynt margoft að hafa samband við pabba sinn, en að viðtökurnar hafi ávallt verið þær sömu.

„Þegar ég var unglingur hringdi ég oft í hann og bað hann um að hitta mig. Svar hans var og hefur alltaf verið það sama: „Ég hringi í þig fljótlega.“

En það hefur hann ekki gert. Ég er þreytt á að hafa samband við hann þegar hann vill aldrei hitta mig.“

Má ekki hitta systkini sín

Og Sunna heldur áfram að spyrja spurninga. Hún vill fá svör en fær engin.

„Er hann að fela sig eitthvað? Er það vegna þess að ég er heyrnarlaus? Ég er dóttir
hans og ég vil hitta systkini mín. Ég á rétt á því. Ég bíð enn þá eftir sannleikanum. Mér finnst þetta svo erfitt og leiðinlegt. Mig hefur oft langað að heimsækja hann og systkini mín, en ég má það ekki.“

Sunna á fleiri systkini en börn Magnúsar og Ragnheiðar.

„Mamma eignaðist tvö önnur börn. Þau eru yngri en ég; heita Hanna Ósk og Steinar Frank. Þau fá að hitta pabba sinn reglulega, eins og eðlilegt er. Ég var afbrýðisöm út í þau þegar ég var yngri vegna þessa.“

Nú eru um þrír mánuðir þangað til Sunna tekst á við nýtt hlutverk í lífinu – það mikilvægasta – foreldrahlutverkið.

„Bráðum eignast ég mitt eigið barn – ég hlakka mikið til og ég veit að ég mun vera hamingjusöm með barnið mitt. Ég þakka mömmu fyrir baráttu hennar fyrir velferð minni í gegnum alla erfiðleika mína. Eitt sem ég get sagt við mömmu mína er: Takk, mamma mín, þú ert besta mamma í heiminum.

En við pabba vil ég segja þetta að lokum: Pabbi, ég er ekki sátt við þig. Ég vil að þú breytir sjálfum þér og gefir þér tækifæri til að kynnast dóttur þinni betur og bjóðir mig velkomna inn í fjölskyldulífið þitt. Ég vona að þú breytist.“

TEXTI: SVANUR MÁR SNORRASON