mánudagur, 17. maí 2010
Inn/Brot
Drengurinn gekk hratt í átt að brotinni rúðunni. Hrasaði áður en hann komst að henni. Stóð upp, þjáður - það mátti lesa af svip hans. Blótaði aðeins en bað Guð strax afsökunar á því.
Þessi hrösun hans minnti hann um margt á atburð sem gerðist þegar hann var átta ára gamall, fjórum árum áður. Þá hafði drengurinn sankað að sér allskyns hlutum héðan og þaðan úr hverfinu sem hann bjó þá í, og ætlaði að halda tombólu. Gefa svo ávinninginn til bágstaddra barna í Afríku.
Hann hafði lagt mikið á sig við söfnunina; gekk hús úr húsi og var allt að því óþreytandi. Í það minnsta fannst föður hans hann eyða of miklum tíma í söfnunina, fannst hann vanrækja heimanámið og píanóæfingarnar.
Móðir hans skipti sér ekkert af þessu hjá drengnum, sagði alltaf að það ætti að leyfa börnum að finna sinn tón sjálf. Faðirinn sagði þá gjarnan eitthvað á þá leið að börn á hans aldri þyrftu aðhlynningu og að þau þyrfti að passa. Væru ekki alveg hæf til að skera úr um hvað væri þeim fyrir bestu. En faðirinn gat sjaldan þrætt lengi við móðurina, sem brosti blíðlega til hans þegar hann reyndi að malda í móinn. Þá brosti hann alltaf blíðlega á móti, eftir að hafa streist á móti brosinu í um hálfa mínútu, eða svo.
Tombóla drengsins þeirra var aldrei haldinn því unglingspiltur braust inn í hjólageymsluna þar sem drengurinn bjó, með því að mölva rúðu, og braut allt og bramlaði sem fyrir honum varð án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Og þar hafði drengurinn einmitt geymt munina sem hann hafði safnað, en hann hafði ætlað að halda tombóluna daginn eftir innbrotið.
Þessi unglingspiltur varð nokkrum árum síðar einn þekktasti ofbeldismaður landsins - síbrotamaður sem dvaldi meira en helming sinnar stuttu ævi á bak við lás og slá.
Þegar drengurinn heyrði rúðuna brotna þar sem hann var á göngu ekki svo langt frá æskuheimili sínu, rifjaðist upp fyrir honum tombólan sem aldrei var haldin. Hann fór að hugsa um hver hefði eyðilagt alla hlutina sem hann hafði safnað.
Hugsanirnar gerðu hann reiðan og hann hljóp í áttina þaðan sem brothljóðið hafði borist, en komst ekki að glugganum því hann hrasaði og meiddi sig á vinstri fæti.
Hann leit upp og sá brotna rúðuna og bað Guð afsökunar á reiði sinni. Tók síðan upp stein af jörðinni og kastaði honum í átt að brotnu rúðunni en var langt frá því að hitta. Haltraði svo til baka og lofaði sjálfum sér að fara strax daginn eftir og safna á tombólu.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)